Fara í innihald

Árhringjatímatal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Trjáhringjatímatal)
Borað eftir sýni til að telja árhringi og aldursgreina timbur
Pinus taeda Þversnið í trjábol, árhringir, Cheraw, Suður-Karólína

Árhringjatímatal eða trjáhringjatímatal er vísindaleg aðferð til að aldursgreina timbur með því að rannsaka vaxtarmynstur árhringja. Þessi aðferð var fundin upp og þróuð á 20. öld, fyrst af Andrew E. Douglass, sem stofnaði rannsóknarstofu í trjáhringjafræðum við Arizonaháskóla. Með þessari aðferð er hægt að aldursgreina timbur svo nákvæmlega, að varla skeikar ári.

Á þeim breiddargráðum, þar sem eru umtalsverð árstíðaskipti, myndast árhringir þegar tré vaxa, og er sá yngsti næst berkinum. Þykkt árhringjanna fer eftir loftslagi á þeim tíma þegar tréð var að vaxa. Við góð skilyrði, þegar hlýtt er og rakt, verða árhringir þykkir, í hörðum árum verða hringirnir þunnir. Á æviferli trésins myndast samfellt árhringjamynstur, sem endurspeglar loftslagsbreytingar á því tímabili. Af því að loftslag og vaxtarskilyrði geta verið mismunandi eftir löndum, hefur árhringjamynstrið séreinkenni á hverjum stað, þó að það sé svipað í nálægum löndum.

Í vissum heimshlutum hefur tekist að kortleggja vaxtarmynstur trjáa allt að 10.000 ár aftur í tímann, en á öðrum svæðum nær kortlagningin yfir styttra tímabil. Sum tré geta orðið mörg þúsund ára gömul, t.d. risarauðviðir og eikur, og hafa þau auðveldað mönnum að byggja upp árhringjatímatal. Þegar timburleifar finnast, t.d. við fornleifarannsóknir, er hægt að aldursgreina timbrið gróft með geislakolsaðferð, og bera það síðan saman við árhringjamynstur frá svipuðum tíma og fá þannig nákvæma aldursgreiningu. Ef ysta lag timbursins er varðveitt, er hægt að ganga úr skugga um hvaða ár tréð var fellt. Með því að athuga séreinkenni í mynstrinu er stundum hægt að leiða líkur að því í hvaða landi tréð óx upp. Upphaflega var þessi samanburður gerður sjónrænt, en nú eru tölvur notaðar til að finna bestu samsvörun.

Árhringir í óþekktri trjátegund, við Bristol á Englandi