Sterkja
Sterkja eða mjölvi (efnaformúla: (C6H10O5)n) er fjölsykra sem er algengasta kolvetnið í fæðu manna, til dæmis í kartöflum og hrísgrjónum. Sterkja er aðal næringarefnið í flestum korntegundum eins og hveiti og maís. Sterkja er mynduð úr glúkósasameindum sem eru tengdar saman með glýkósíðtengjum.
Hrein sterkja er hvítt bragðlaust og lyktarlaust duft sem leysist ekki upp í köldu vatni eða alkohóli. Hún inniheldur tvenns konar sameindir: línulegan eða gormlaga amýlósa, og greinótt amýlópektín. Þótt það sé mismunandi eftir plöntum, er hlutfall amýlósa um 20-25% og amýlópektíns 75-80% af þyngd.[1] Glýkógen (líka kallað „dýrasterkja“) sem myndar orkuforða dýra er enn greinóttari gerð amýlópektíns.
Í matvælaiðnaðinum er sterkju oft breytt í sykur, til dæmis með meskingu. Sykurinn er síðan gerjaður til að búa til áfengi. Þetta ferli er undirstaða framleiðslu á bjór, viskíi og lífeldsneyti. Sykur úr sterkju er líka notaður sem sætuefni í ýmis konar matvæli.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Brown, W. H.; Poon, T. (2005). Introduction to organic chemistry (3. útgáfa). Wiley. bls. 604. ISBN 978-0-471-44451-0.