Torfi Jónsson í Klofa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Torfi Jónsson í Klofa (um 14601504) var íslenskur sýslumaður og höfðingi á 15. öld, stórbokki sem átti í hörðum deilum við Stefán Jónsson Skálholtsbiskup og lét drepa Lénharð fógeta árið 1502.

Foreldrar Torfa voru Jón Ólafsson, bóndi og sýslumaður í Klofa á Landi, sonur Ólafs Loftssonar ríka Guttormssonar, og kona hans Ingibjörg Eiríksdóttir. Jón dó einhverntíma eftir 1471 og Ingibjörg giftist aftur 1481 Ormi Jónssyni bónda í Klofa og síðar sýslumanni á Skarði á Skarðsströnd. Hann var í fjórmenningsfrændsemi við fyrri mann hennar og þurfti því páfaleyfi til giftingarinnar. Þau Ormur og Ingibjörg áttu í deilum við Stefán Jónsson biskup, meðal annars af því að þau höfðu hjá sér sakamenn sem biskup vildi fá á sitt vald.

Torfi, sem bjó í Hvammi í Dölum og Hjörsey á Mýrum áður en hann settist að í Klofa, átti einnig í miklum deilum við biskup, bæði vegna þess að Torfi hélt verndarhendi yfir fólki sem biskup taldi eiga í sökum við kirkjuna en einnig þótti biskupi hann ekki standa vel í skilum með tíundir og önnur gjöld til kirkjunnar. Varð mikill óvinskapur á milli þeirra sem ýmsum sögum fer af og meðal annars er sagt að Torfi hafi að minnsta kosti tvisvar reynt að fara að biskupi í Skálholti en ekki haft erindi sem erfiði. Hann virðist hafa verið hinn mesti ribbaldi og einskis svifist. Þó er sagt að heldur hafi lagast samkomulagið á milli þeirra biskups þegar Torfi veiktist illa á Alþingi, rak upp mikil hljóð og varð svo sterkur, að átta menn þurfti til að halda honum en síðan tókst að binda hann. Kom biskup þar að með öllum þeim prestum sem voru á þingi og báðu þeir allir fyrir Torfa með lestrum og söngvum. Sefaðist Torfi þá nokkuð og þótti stilltari eftir það.

Árið 1502 lét Torfi drepa Lénharð „fógeta“, sem fátt er vitað um, erlendan ribbalda sem hafði sest að í Arnarbæli með ránum og yfirgangi, átt í deilum við Torfa og hótað að drepa hann. Fór Torfi að honum með flokk manna og lét aflífa hann á Hrauni í Ölfusi. Torfi skriftaði fyrir Stefáni biskupi eftir dráp Lénharðs en biskup gerði honum ekki miklar sektir, sagði hann hafa unnið það verk manna heppnastan.

Á Alþingi 1504 var Torfi enn með yfirgang, vildi hrekja Arnór Finnsson sýslumann úr dómi sem hann hafði verið skipaður í og gekk að dómnum með lið vopnað bogum, byssum, sverðum, spjótum og arngeirum og þrengdi að Arnóri. Ekki löngu seinna dó Torfi og fer tvennum sögum af andláti hans, hann er ýmist sagður hafa dáið úr sótt á Skíðbakka í Landeyjum eða úr drykkjuskap á Fíflholtsþingi. Eftir dauða hans gerði ekkja hans sátt við Stefán biskup og borgaði honum þrjár jarðir og góðan silfurkross til að Torfi gæti fengið legstað í Skálholti eins og hann hafði kosið sér.

Kona Torfa var Helga Guðnadóttir (d. 1544), sem var dóttir Guðna Jónssonar sýslumanns á Kirkjubóli, bróður Orms stjúpföður Torfa og Páls Jónssonar sýslumanns á Skarði, og konu hans Þóru, dóttur Björns Þorleifssonar hirðstjóra á Skarði. Bróðir hennr var Björn Guðnason sýslumaður í Ögri og voru þeir mágarnir samherjar í deilum við Stefán biskup og hans helstu mótstöðumenn. Þau Helga og Torfi áttu fjölda barna sem flest voru á barnsaldri þegar faðir þeirra lést. Helga bjó ekkja í Klofa til 1525.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • „Þar harpan bannar börnunum að sofa. Sunnudagsblað Tímans, 3. sept. 1967“.