The Marbles

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

The Marbles var enskur rokkdúett sem starfaði á árunum 1968 til 1969.

Frændurnir Graham Bonnet (fæddur 23. desember 1947) og Trevor Gordon (fæddur Trevor Gordon Grunnill 5. maí 1948) stofnuðu sveitina The Blue Sect árið 1967 en tóku upp nafnið The Marbles strax árið eftir. Bonnet ólst upp á Englandi en Gordon í Ástralíu þar sem hann meðal annars tók upp fjögur lög með The Bee Gees. Eftir stofnun The Marbles komst sveitin á samning við ástralska upptökustjórann Robert Stigwood. Þá urðu þeir góðvinir Barry og Maurice Gibb, úr The Bee Gees, sem sömdu 6 lög fyrir The Marbles og sungu þess að auki bakraddir.

The Marbles skutust upp á stjörnuhimininn með laginu „Only One Woman“ sem komst í 5. sæti breska smáskífulistans í nóvember 1968. Næsta smáskífa sveitarinnar var „The Walls Fell Down“ sem komst einungis í 28. sæti sama lista en komst 3. sæti hollenska vinsældalistans í apríl 1969.

Árið 1969 hætti hljómsveitin og Gordon hætti afskiptum af tónlistarbransanum. Bonnet hóf hins vegar sólóferil og á árabilinu 1978 til 1980 var hann aðalsöngvari hljómsveitarinnar Rainbow.