Fara í innihald

Syndaskattar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Syndaskattar eru skattar sem lagðir eru á vörur sem eru af ýmsum ástæðum álitnar skaðlegar í tilteknum samfélögum, s.s. áfengi, tóbak og fjárhættuspil. Syndaskattar eru tegund af Pigou-skatti, þ.e. þeim er ætlað að bæta ójafnvægi sem stafar af neikvæðum ytri áhrifum. Syndaskattar eru þannig réttlættir með því að tekjurnar af neyslu skaðlegu vörunnar þurfi til að greiða fyrir skaðann sem neysla hennar veldur. Skattur á fjárhættuspil er þannig notaður til að niðurgreiða meðferð við spilafíkn og áfengisgjald notað til að greiða niður áfengismeðferðir. Einkum á þetta við í löndum þar sem heilbrigðisþjónusta er niðurgreidd af ríkinu í miklum mæli.

Andstæðingar syndaskatta benda gjarnan á að þeir leggist að jafnaði mun þyngra á láglaunahópa en hálaunahópa og mismuni því þegnunum í reynd, að þeir ýti undir smygl og aðra ólöglega starfsemi og að þeir hafi engin áhrif til að draga úr neyslu skaðlegu vörunnar.