Sveppagaldrar í Sveppaborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Sveppagaldrar í Sveppaborg (franska: Il y a un sorcier à Champignac) er önnur Svals og Vals-bókin og fyrsta sagan í fullri lengd. Höfundur hennar var Franquin. Sagan birtist í teiknimyndablaðinu Sval 1950-51 en kom út á bókarformi árið 1951. Íslensk útgáfa kom út árið 2017 hjá Froski útgáfu.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Svalur og Valur bregða sér í útilegu í námunda við hina friðsælu Sveppaborg. Þegar þangað er komið uppgötva þeir að undarlegir hlutir eru á seyði: skepnur bænda hríðhorast eða vaxa með ógnarhraða og fólk fellur í fastasvefn. Oftar en ekki finnast torkennilegir sveppir á vettvangi. Reiði bæjarbúa beinist að sígauna nokkrum, sem er sakaður um að vera göldróttur. Svalur og Valur efast þó um sekt hans.

Í námunda við bæinn er dularfullt setur sérviturs greifa. Greifinn rænir Val og framkvæmir á honum tilraunir. Valur öðlast tímabundna ofurkrafta og frelsar sígaunann úr klóm reiðs múgsins. Sveppagreifinn biðst afsökunar á ónæðinu sem tilraunir hans hafa valdið og lofar að bæta skaðann.

Skömmu síðar lesa Svalur og Valur um aldraðan íþróttamann sem sigri í hverju mótinu á fætur öðru. Grunur þeirra er fljótlega staðfestur: greifinn hefur þróað sveppalyf sem gefur honum ofurkrafta. Með því að keppa á íþróttamótum hyggst hann safna peningum til að standa undir rannsóknum sínum.

Smáglæpamaður kemst á snoðir um töfralyfið. Hann stelur því og gerist stórtækur ræningi með ofurkrafta. Að lokum dvína þó áhrif lyfsins og Svalur og Valur koma honum í hendur lögreglu.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Þetta er fyrsta bókin þar sem Sveppagreifinn kemur við sögu. Í bókinni er hann ástríðufullur vísindamaður sem hugsar ekkert um afleiðingar gjörða sinna og skeytir lítið um aðra. Persóna hans átti eftir að breytast mikið í næstu bókum.
  • Í bókinni skapar Franquin samfélagið Sveppaborg, sem síðar átti eftir að veða vettvangur fjölmargra sagna í bókaflokknum. Ýmsar aukapersónur, s.s. hinn alvörugefni og málglaði borgarstjóri Sveppaborgar eru kynntar til sögunnar.

Útgáfuupplýsingar[breyta | breyta frumkóða]

Sveppagaldrar í Sveppaborg var gefin út af Froski útgáfu árið 2017. Jean Antoine Posocco, eigandi útgáfunnar, sá um uppsetningu og handskrift. Auður S. Arndal er skráð fyrir íslenskri þýðingu.