Svart á hvítu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Svart á hvítu var bókafélag og bókaútgáfa sem sett var á stofn árið 1984 og rekið til ársins 1990. Inngönguskilyrði í bókafélagið voru kaup á þremur bókum á tilboðsverði af félaginu. Félagið var í byrjun til húsa að Borgartúni 29. Forlagið gaf meðal annars út Íslendingasögur með nútímastafsetningu, Sturlungasögu, heildarverk Jónasar Hallgrímssonar og hóf vinnu við útgáfu Sögu-Atlas.

Forlagið stóð ásamt öðrum aðilum árið 1988 að fyrirtækinu Íslenski myndbandaklúbburinn, var hluthafi í tímatrítinu Þjóðlíf og vann að gerð gagnagrunns um Ísland. Dótturfyrirtæki Svarts á hvítu, Íslenski gagnagrunnurinn hf., var stofnað til að búa til upplýsingabanka og hugbúnaðarkerfi og voru nokkur ársverk sett í að búa til tvo gagnagrunna, annars vegar Íslandsgrunninn og hins vegar Lagagrunninn. Lagagrunnurinn var gagnabanki með öllum hæstaréttardómum íslenskum frá upphafi og forrit til að ná úr honum upplýsingum. Íslandsgrunnurinn var forritunarvinna sem fólst í að gera Íslandslýsingu sem yrði grundvöllur annarra upplýsingagrunna.

Svart á hvítu lenti í greiðsluerfiðleikum og í desember 1988 heimilaði Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi fjármálaráðherra að Svart á hvítu greiddi söluskattsskuld sína við Ríkissjóð að upphæð 25 milljónir með veðbandabréfi frá Íslenska gagnagrunninum. Svart á hvítu varð svo gjaldþrota árið 1990 og á nauðungaruppboði borgarfógetaembættisins 7. mars 1992 var Íslenski gagnagrunnurinn boðinn upp og sleginn umbjóðanda ríkissjóðs fyrir 100.000 kr.

Orðstöðulykill úr Íslendingasögum er byggður á tölvuinnslætti sem Svart á hvítu lét gera.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]