Fara í innihald

Svæðanudd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skýringarmynd af fótunum til svæðanudds.

Svæðanudd eða svæðameðferð er aðferð notuð í óhefðbundnum lækningum til þess að örva taugaenda í höndum og fótum með því að þrýsta á þá og á þessi aðferð að lækna hina ýmsu kvilla. Egyptar, Indíánar og Kínverjar hafa notað þessa aðferð í gegnum aldirnar en það var ekki fyrr en á 19. öld sem þessi aðferð fór að njóta vinsælda í hinum vestræna heimi. Ekki eru til vísindalegar sannanir fyrir því að svæðameðferð beri árangur í baráttu við sjúkdóma en læknastéttin viðurkennir þessa aðferð ekki sem vísindalega. Þeir sem lært hafa svæðameðferð og þeir sem hafa notið slíkrar meðferðar eru hins vegar sannfærðir um ágæti hennar.

Uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Elstu heimildir um svæðanudd eru frá Kína frá því fimm þúsund ár aftur í tímann eða þrjúþúsund árum fyrir Kristburð en nálastunguaðferð Kínverja er einnig þekkt frá þessum tíma.[1] Það var árið 1913 sem Bandaríkjamaðurinn Dr. William H. Fitzgerald (1872-1942), háls-, nef- og eyrnalæknir, kynnti þessa aðferð fyrir hinum vestræna heimi.[2] Á fjórða áratug 20. aldar var þessi tækni þróuð enn fremur af hjúkrunarfræðingnum og sjúkraþjálfaranum Eunice D. Ingham (1889-1974). Hún sagði hendur og fætur vera afar viðkvæm svæði sem mætti ná miklum árangri með svæðameðferð. Ingham skipti líkamanum í svæði og kortlagði fætur og hendur með tilliti til þessa. Þannig áttu allir hlutar líkamans sinn stað í fótum og höndum og svaraði hægri hluti líkamans til hægri fótar/handar og vinstri hluti líkamans til vinstri fótar/handar.[3] Ingham þróaði einnig sérstaka nuddaðferð og hefur hún verið kölluð Ingham-aðferðin.[1]

Útskýring[breyta | breyta frumkóða]

Svæðanudd og svæðameðferð eru ekki eins og hefðbundið nudd. Aðferðin sem notuð er beinist að því að örva taugaenda í höndum og fótum með því að þrýsta á þá. Þar sem að hugmyndin á bakvið svæðanuddi segir að allir líkamshlutar og líffæri eigi sér samsvörun í höndum og fótum þá er þrýstingi beitt á það svæði sem þarfnast bata með því að ýta á taugaenda á réttum stað í fótum/höndum. Hvert líffæri, innkirtlar og öll starfsemi líkamans í heild hefur taugaenda sem er að finna í höndum eða fótum og með því að beita þá þrýstingi er hægt að hafa áhrif á starfsemi þess svæðis sem átt er við. Samspil orkurása, kenningar um orkubrautir og punkta á orkubrautum eru einnig viðfangsefni svæðameðferðar.[1]

Með því að nota svæðameðferð vill fólk meina að hægt sé að lækna hina ýmsu sjúkdóma og kvilla með því að þrýsta á rétta punkta í höndum og fótum. Ef fólk þjáist til dæmis af hægðatregðu þá myndi svæðanuddari þrýsta á þann punkt í fótum sem samsvaraði til þarmanna eða þar sem að taugaendar þarmanna liggja. Við þetta áreiti á taugaendann myndi svæðanuddarinn hafa áhrif á svæðið sem yrði til þess að hægðatregðan myndi hætta.[heimild vantar]

Gagnrýni á svæðanudd/svæðameðferð[breyta | breyta frumkóða]

Engar vísindalegar sannanir liggja fyrir um ágæti svæðameðferðar en læknar og vísindamenn vilja meina að svæðanudd geri ekki meira gagn en venjulegt nudd, það er að segja, leiði einungis til líkamlegrar vellíðan en lækni ekki sjúkdóma. Svæðanuddarar svara þessari gagnrýni á þann veg að vissulega geri meðferð þeirra gagn en eitt er víst að hún valdi í það minnsta engum skaða líkt og ólíkar lyfjameðferðir geti gert.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 „Svæðanudd - Reflexology“. Sótt 19. mars 2010.
  2. „Complementary Health and Alternative Medicine - Reflexology“. Sótt 19. mars 2010.
  3. „Eunice Ingham: Biography from Answers.com“. Sótt 19. mars 2010.