Strumpasúpan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Strumpasúpan (franska: La Soupe aux Schtroumpfs) er tíunda bókin í ritröðinni um Strumpana og kom út árið 1976. Listamaðurinn Peyo teiknaði og samdi söguna í samvinnu við Yvan Delporte. Hún var jafnframt þriðja strumpabókin sem kom út á íslensku árið 1980.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Strumpasúpan er aðalsaga bókarinnar. Hún hefst á því að tveir strumpar verða vitni að því þegar risi nokkur, Lilli að nafni, ber að dyrum hjá Kjartani galdrakarli og krefst þess að fá að borða. Kjartan sér sér leik á borði og sannfærir gestinn um að ekkert sé eins gómsætt og strumpasúpa. Saman halda þeir í leit að strumpum til að snæða. Þeir fara á mis á leiðinni, Kjartan villist en Lilli finnur strumpaþorpið. Hann kvartar í sífellu undan svengd, en strumparnir þykjast ætla að laga strumpasúpu. Í stað strumpasúpunnar byrlar Yfirstrumpur risanum töfraseyði sem gerir hann að afstyrmi. Lilli bregst illur við og kennir Kjartani um ógæfu sína. Að lokum aumka strumparnir sig yfir Lilla og gefa honum móteitur sem gerir hann eðlilegan á ný.

Strumpalæti er safn smáskrítlna, sem hver er ein blaðsíða. Engu að síður stendur utan á íslensku útgáfunni að bókin innihaldi tvær strumpasögur. Í einni smáskrítlunni kemur Strympa við sögu, en íslenskir lesendur höfðu ekki kynnst henni áður.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Bókin kom út á vegum Iðunnar árið 1979 (á titilsíðu er bókin þó ranglega sögð frá 1980) í samvinnu við danska forlagið Carlsen. Þýðingin var gefin út undir dulnefninu Strumpur.