Fara í innihald

St. John's (Nýfundnaland og Labrador)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá St. John's (Nýfundnalandi))
St. John's.
Lega St. John's
Main street.
St. John's séð frá Signal Hill.
St. John's um vetur.

St. John's er stærsta borgin og höfuðstaður kanadíska fylkisins Nýfundnaland og Labrador. Borgin liggur á Avalonskaga austarlega á Nýfundnalandi. Íbúar eru um 109 þúsund en 200 þúsund á stórborgarsvæði St. John's (2016). Borgin er talin elsta enska borg Norður-Ameríku og er einnig sú austasta. Hún byggðist upp sem fiskveiðibær en með dvínandi mikilvægi fiskiðnaðar hefur olíu og gasvinnsla hlotið meiri sess í atvinnulífi. Þar er mikilvæg fraktskipahöfn.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

John Cabot (Giovanni Caboto) tók land í St. John´s þann 24. júní árið 1497 sem er Jónsmessa, er á ensku kallast Feast of St. John the Baptist og af því dregur borgin nafnið. Föst búseta á St. John’s-svæðinu varð árið 1528. Sir Humphrey Gilbert helgaði byggðina Englandi. Staðurinn var ákjósanlegur hafnarstaður, fengsæl og óspillt fiskimið skammt undan og hvergi í hinum Nýja heimi var styttra til Evrópu. Staðurinn varð því fljótt tímabundin verstöð evrópskra fiskimanna.

Bretar, Frakkar og Hollendingar börðust um yfirráðin en svo fór að lokum um 1620 að Bretar náðu að mestu yfirráðum, þótt Frakkar og Hollendingar hafi gert nokkrar atlögur á bæinn fram á 18. öld.[1] Í St. John's var var brezk sjóherstöð í sjálfstæðisstríði BNA og stríðinu við Frakka 1812-15. Breska nýlendustjórnin réði bænum til 1888, þegar hann fékk borgarréttindi.

Það varð að endurbyggja lungann úr bænum eftir mikla eldsvoða á 19. öld, þannig að þar ægir saman ýmsum byggingarstílum. Borgin stækkaði talsvert í síðari heimsstyrjöldinni, því að bandamenn komu þar upp herstöð. Snemma á áttunda áratugnum var mikilli endurbyggingaráætlun hrundið í framkvæmd. Fiskstofnar hrundu um 1990 og þurfti borgin fjárhagslega aðstoð frá kanadískum stjórnvöldum. [2] Í byrjun 21. aldar hefur efnahagur vænkast.

  1. Nýfundnaland I[óvirkur tengill] Skógræktarritið. Skoðað 15. mars, 2016.
  2. Kanada - St. John's Ferðaheimur. Skoðað 15. mars, 2016.