Stígvélaði kötturinn
Stígvélaði kötturinn (finnst einnig nefndur Stígvélakötturinn) er þekktastur sem persóna í frönsku ævintýri (Le Maitre Chat, ou Le Chat Botté), sem Charles Perrault samdi í lok 17. aldar. Fátækur malarasonur fær kött í föðurarf. Hann reynist geta talað og vill láta smíða á sig stígvél, sem malarasonurinn lætur eftir honum. Síðan leggur kötturinn af stað, og honum tekst með brögðum að færa húsbónda sínum bæði auðæfi og prinsessu sem konuefni.
Áður hafði Giovanni Francesco Straparola skráð áþekka sögu (Costantino Fortunato). Það hafði Giambattista Basile einnig gert (Pippo). Fleiri eldri sögur má finna, sem svipar nokkuð til sögunnar eftir Perrault. Ekki hefur verið sýnt fram á, að hann hafi þekkt neina þeirra. Eldri saga um mann sem hagnast á því að eiga kött er enska sagan Dick Whittington frá 15. öld.
Gerðar hafa verið 15 kvikmyndir um stígvélaða köttinn, auk þess sem hann kemur fyrir í myndunum um Shrek.[1] Grimmsbræður tóku upp í ævintýrasafn sitt eina gerð af sögu Perraults, nokkuð frábrugðna.[2] Ludwig Tieck gerði leikrit eftir henni.[3] Pjotr Iljitsj Tsjaíkovskíj notaði stígvélaða köttinn í þriðja þætti af ballettinum Þyrnirós.[4] César Cui og Xavier Montsalvatge sömdu hvor um sig óperu um hann.[5][6]
Ævintýrið um stígvélaða köttinn var fyrst gefið út á íslensku af Kristjáni Ó. Þorgrímssyni árið 1880 í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar.[7] Ýmsir aðrir Íslendingar hafa með einhverjum hætti fengist við stígvélaða köttinn, þar á meðal: Auður Haralds, Loftur Guðmundsson og Þorsteinn frá Hamri.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Stígvélaði kötturinn @ IMDb. Skoðað 23. október 2010.
- ↑ Zeno. Skoðað 24. opktóber 2010.
- ↑ Zeno. Skoðað 24. október 2010.
- ↑ Tchaikovsky Research Geymt 1 janúar 2012 í Wayback Machine. Skoðað 24. október 2010.
- ↑ International Music Score Library Project. Skoðað 24. október 2010.
- ↑ Peermusic Geymt 4 júní 2011 í Wayback Machine. Skoðað 24. október 2010.
- ↑ Þjóðólfur 8. maí 1880. Skoðað 24. október 2010.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Franski frumtexti ævintýrisins @ Google Books. Skoðað 23. október 2010.
- Myndskreytt útgáfa á ensku @ Media Informatics LLC Geymt 6 júlí 2011 í Wayback Machine. Skoðað 24. október 2010.