Spjaldvefnaður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslensk kona að vefa í spjöldum með tvöföldu skili. Frumteikning er gerð af Brynjúlfi Jónssyni en síðan teiknað af þýsku höfundi bókarinnar Brettchenweberei en þar birtist þessi teikning fyrst. Teikningin birtist svo í Eimreiðinni árið 1903

Spjaldvefnaður er ævaforn aðferð við vefnað og eru elstu dæmi frá því um 400 fyrir Krist. Spjaldvefnaður var þekktur á Norðurlöndum á Víkingatímanum og barst til Íslands með landnámsmönnum. Aðferðir við spjaldvefnað eru taldar hafa þróast frá þráðum sem snúið var saman í snúruband yfir í ofin bönd með rósaflúri, stöfum og mynstri. Mismunandi fjöldi spjalda var notaður við vefnaðinn og voru þau þríhyrnd, ferhyrnd eða sexhyrnd. Spjöldin gátu verið úr tré, börk, beini eða leðri en núna tíðkast að nota spjöld úr pappa. Gegnum spjöldin voru dregin bönd sem notuð voru sem uppistaða. Spjaldofin bönd voru meðal annars notuð í skreytingu á fatnaði, styttubönd, axlabönd , sokkabönd, belti, ólar og tauma. Í Þjóðminjasafni Íslands eru varðveitt nokkur spjaldofin styttubönd og axlabönd.

í Eddukvæðum í Guðrúnarkviðu II. eru ljóðlínur þar sem minnst er á spjaldvefnað. Þar stendur :

Húnskar meyjar þærs hlaða spjöldum
ok gera goll fagrt svát þjer gaman þykki.

Í Guðrúnarkviðu er einnig sagt frá konu sem brá borða:

Þá frá Grímhildur, gotnesk kona
hvár værak kominn, hyggju þrungin,
hún brá borða ok buri heimti
þrágjarnlega þess at spyrja.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]