Fara í innihald

Snið:Gátt:Heimspeki/Grein

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Raunhyggja er viðhorf í þekkingarfræði og vísindaheimspeki sem leggur áherslu á hlutverk reynslu í tilurð þekkingar.

Upprunalega voru raunhyggjumenn hópur forngrískra lækna en frægastur þeirra er efahyggjumaðurinn Sextos Empeirikos. Á 17. öld var breski heimspekingurinn John Locke helsti upphafsmaður nútíma raunhyggju. Locke hélt því fram að hugurinn væri tabula rasa („óskrifað blað“) sem reynslan fyllti út. Slík raunhyggja hafnar því að fólk hafi „meðfæddar hugmyndir“ eða að eitthvað sé þekkjanlegt án tilvísunar til reynslu.

Raunhyggju er oft stillt upp andspænis rökhyggju, sem kveður í grófum dráttum á um að þekking á grundvelli skynseminnar einnar og óháð allri reynslu sé möguleg. Ágreiningur raunhyggju- og rökhyggjumanna var þó flóknari en slík einföldun gefur til kynna enda voru allir helstu málsvarar rökhyggjunnar (René Descartes, Baruch Spinoza og Gottfried Leibniz) einnig málsvarar raunhyggju sem vísindalegrar aðferðar á sínum tíma. Enn fremur taldi Locke, fyrir sitt leyti, að suma þekkingu (t.d. á tilvist guðs) væri hægt að öðlast gegnum innsæi og skynsemina eina.