Fara í innihald

Skraparotspredikun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skraparotspredikun var einn þáttur Herranætur í Skálholtsskóla til forna, ræða sem er skopstæling á stólræðum presta. Hún er til í mörgum afskriftum og hefur verið vinsæl. Um aldur hennar er ekki vitað en elstu handrit sem varðveist hafa eru talin frá miðri 18. öld. Skopfærðar stólræður af svipuðu tagi (sermons joyeux) eru vel þekkktar frá öðrum löndum á miðöldum og er hugsanlegt að einhver hefð hafi lifað eftir frá kaþólskum sið.

Ekkert er vitað um hver Skraparot á að hafa verið eða uppruna nafnsins en hann réði fyrir tóbaki og kertum, sem hvorttveggja var skólapiltum mjög nauðsynlegt. Þess hefur verið getið til að Skraparot hafi verið einhvers konar leikbrúða sem skólapiltar hafi borið í skrúðgöngu og síðan hafi „biskupinn“, það er að segja einn skólasveina, haldið predikunina. Textinn sem lagt er út af í predikuninni er: „Hver sem misbrúkar mínar dætur á jólunum, hann mun ei sjá mína dýrð á páskunum, en hver sem ei misbrúkar mínar dætur á jólunum, hann skal sjá mína dýrð á páskunum.“ Dæturnar voru tóbaksstubbur og kertisskar. Halldór Laxness notar bút úr Skraparotspredikun í Íslandsklukkunni.

Skraparotspredikun lagðist af þegar skólinn flutti til Reykjavíkur en þess í stað voru fluttir leikþættir eða leikrit á Herranótt í Hólavallarskóla.

  • „„Hrólfur eftir Sigurð Pétursson frumsýndur í Hólavallaskóla". Á vef Leikminjasafns Íslands, skoðað 25. júní 2011“.
  • „Skraparotsprédikun. Blanda, 7. bindi, 1940-1943“.