Skálmarnes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skálmarnes er nes við norðanverðan Breiðafjörð. Nesið tilheyrði Múlahrepp til forna, en tilheyrir nú Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandarsýslu. Nesið er í laginu eins og þríhyrningur, breitt að sunnanverðu en mjókkar til norðurs. Skálmarfjörður er austan við nesið en Kerlingarfjörður vestan við. Skálmarnesfjall þekur nesið að mestu. Hlíðarnar að vestan og austanverðu eru brattar en undirlendi mest að sunnarverðu.

Búseta[breyta | breyta frumkóða]

Um aldir var blómleg byggð á nesinu en föst búseta hefur lagst af. Vegslóði liggur um vestanvert nesið. Vegurinn er afar mjór og erfitt er fyrir bifreiðir að mætast. Vestasti bærinn á nesinu er Fjörður, sem var lengi næst stærsta jörðin í Múlasveit. Næsti bær frá Firði er Deildará, svo Hamar og Ingunnarstaðir. Austasti bærinn á nesinu er Skálmarnesmúli, eða Múli. Jörðin hefur verið höfuðból sveitarinnar og kirkjustaður að fornu og nýju. Búskapur lagðist af á Skálmarnesi í kringum 1980, en flestum bæjarhúsunum er enn haldið við og mannlíf blómlegt yfir sumartímann.