Sigurður Jónsson á Grenjaðarstað

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sjá aðgreiningarsíðu fyrir aðra einstaklinga sem heita Sigurður Jónsson.

Sigurður Jónsson (um 15201595) var prestur á Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu á 16. öld, einn helsti klerkur landsins og tvívegis kjörinn biskup en í hvorugt skiptið fékkst kjör hans samþykkt.

Sigurður var yngsti sonur Jóns Arasonar Hólabiskups og fylgikonu hans, Helgu Sigurðardóttur. Hann varð prestur á Grenjaðarstað eftir að Magnús bróðir hans, sem þar hafði verið prestur, dó ungur. Hann var sagður mikill lærdómsmaður og eftir að klaustrið á Munkaþverá var lagt niður um siðaskipti hafði hann skóla hjá sér á Grenjaðarstað og kenndi ungum mönnum.

Sigurður var talinn mestur vitsmunamaður af bræðrum sínum en friðsamari en bræður hans, Björn og Ari, og stóð að miklu leyti utan við átökin þótt hann styddi föður sinn. Hann var líka fulltrúi Jóns biskups í mörgum málum sem tengust rekstri Hólastóls og rak erindi hans erlendis; árið 1542 sendi Jón Sigurð og Ólaf Hjaltason prest í Laufási, á konungsfund og dvöldust þeir við hirð Danakonungs um veturinn. Þó er að sumu leyti eins og Jón, Ari og Björn hafi haft lítið álit á Sigurði og talið hann huglausan; Ari talaði að sögn um að hann hefði kálfshjarta og Jón kallaði hann dóttur sína en sagði að Þórunn væri sonurinn.

Eftir að Jón biskup, Björn og Ari voru handteknir og síðan teknir af lífi fór Sigurður í Hóla og sá um rekstur stólsins. Þá gerði hann meðal annars ítarlega skrá um eignir biskupsstólsins, sem varðveist hefur. Vorið 1551 komu tvö dönsk herskip til Oddeyrar og var Sigurður kallaður þangað ásamt öðrum helstu höfðingjum Norðlendinga og voru þeir látnir sverja Danakonungi hollustueið. Sigurður var tvívegis kjörinn biskup á Hólum en í bæði skiptin neitaði konungur að samþykkja kjör hans. Hann var þó áfram helsti og auðugasti prestur norðanlands, hélt sig með rausn og hafði jafnan vopnaða fylgdarsveina.

Fylgikona Sigurðar og síðar eiginkona var Sesselja, dóttir Péturs Loftssonar í Stóradal í Eyjafirði, sem var einhver auðugasti maður á Íslandi á sinni tíð. Þau áttu tvö börn sem bæði dóu ógift og barnlaus en laundóttir Sigurðar með Guðrúnu Markúsdóttur var Þuríður Sigurðardóttir húsfreyja í Stóradal og er af henni komin mikil ætt.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Ásgeir Jónsson (inngangur) (2006). Jón Arason biskup: Ljóðmæli. JPV útgáfa. ISBN 978-9979-798-03-3.