Fara í innihald

Sigurður Ólafsson - Sjómannavalsinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sigurður Ólafsson syngur Sjómannavalsinn
Bakhlið
IM 20
FlytjandiSigurður Ólafsson, Bjarni Böðvarssonar, Aage Lorange, Einar B. Waage
Gefin út1953
StefnaSönglög
ÚtgefandiÍslenzkir tónar

Sigurður Ólafsson syngur Sjómannavalsinn er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Sigurður Ólafsson lögin Sjómannavals og Stjörnunótt. Hljómsveitina skipa Bjarni Böðvarsson, Aage Lorange og Einar B. Waage. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló.

  1. Sjómannavals - Lag - texti: Svavar Benediktsson - Kristján frá Djúpalæk - Hljóðdæmi
  2. Stjörnunótt - Lag - texti: Þórður G. Halldórsson - Loftur Guðmundsson - Hljóðdæmi


Lögin Sjómannavals og Stjörnunótt voru send inn í danslagakeppni SKT árið 1953 og fengu bæði verðlaun í flokki gömlu dansanna. Stjörnunótt fékk 3. verðlaun en Sjómannavals vann keppnina og varð eitt vinsælasta íslenska lag síðustu aldar. Til marks um vinsældirnar hefur valsinn fengið ákveðinn greini í huga þjóðarinnar og heitir nú Sjómannavals-„inn” í stað hins hógværa heitis sem það bar upphaflega.

Sjómannavalsinn

[breyta | breyta frumkóða]
Nótnahefti sem gefið var út vegna SKT keppninnar 1953

Hið magnaða ljóð Kristjáns frá Djúpalæk við lag Svavars Benediktssonar:

Það gefur á bátinn við Grænland
og gustar um sigluna kalt,
en togarasjómanni tamast það er
að tala sem minnst um það allt.
En fugli, sem flýgur í austur,
er fylgt yfir hafið með þrá.
Og vestfirskur jökull, sem heilsar við Horn
í hylling með sólroðna brá,
segir velkominn heim, segir velkominn heim,
þau verma hin þögulu orð.
Sértu velkominn heim, yfir hafið og heim.
Þá er hlegið við störfin um borð.
En geigþungt er brimið við Grænland
og gista það kýs ekki neinn.
Hvern varðar um draum þess og vonir og þrár,
sem vakir þar hljóður og einn?
En handan við kólguna kalda
býr kona, sem fagnar í nótt
og raular við bláeygan, sofandi son,
og systur hans, þaggandi hljótt:
Sértu velkominn heim, sértu velkominn heim.
Að vestan er siglt gegnum ís.
Sértu velkominn heim, yfir hafið og heim.
Og Hornbjarg úr djúpinu rís.