Sigmundur Einarsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigmundur Einarsson var officialis í Skálholtsbiskupsdæmi um 1340 og príor í Viðeyjarklaustri frá 1344 til 1352, eða þann tíma sem Viðeyjarklaustur var benediktínaklaustur.

Óvíst er um ætt Sigmundar en hann var officialis á Valþjófsstað um 1340. Helgi Sigurðsson ábóti í Viðeyjarklaustri dó í árslok 1343 en á Benediktsmessu árið eftir, 31. mars, tók Jón Sigurðsson Skálholtsbiskup af Ágústínusarreglu í Viðey, sem þar hafði verið frá stofnun klaustursins, og setti þess í stað Benediktsreglu. Um leið skipaði hann Sigmund príor í klaustrinu. Ekki er víst hvort hann hafði fengið páfaleyfi fyrir breytingunni eins og hefði átt að þurfa.

Sigmundur var príor í Viðey í átta ár en árið 1352 breytti Gyrðir Ívarsson biskup klausturhaldi í Viðey aftur til fyrra horfs, setti Ágústínusarreglu þar að nýju og vígði Björn Auðunarson sem ábóta. Ekki er víst hvað um Sigmund varð eða hvort hann var þá látinn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Viðeyjarklaustur. Sunnudagsblað Tímans, 23. júlí 1967“.
  • „Um klaustrin á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.