Sighvatur Þórðarson
Sighvatur Þórðarson (995 – um 1047) var íslenskt skáld. Faðir hans hét Þórður Sigvaldaskáld og var hann með Ólafi digra Haraldssyni í víkingaferðum. Sighvatur var fóstraður við Apavatn, og er sagður hafa fengið skáldíþrótt sína með því að borða höfuð viskufiska úr vatninu í bernsku. Hann var eitt helsta skáld Íslendinga á 11. öld og er meira varðveitt af kveðskap hans en nokkurs annars samtímaskálds.
Sighvatur gerðist hirðskáld og höfuðskáld Ólafs konungs Haraldssonar og var jafnframt stallari hans. Hann var þó ekki í orrustunni á Stiklarstöðum með konungi því þá hafði hann farið í suðurgöngu til Rómar og var á heimleið þegar hann frétti fall konungs. Hann var einnig um tíma hirðskáld Knúts ríka, Magnúsar góða og Önundar Svíakonungs. Flest varðveitra kvæða hans eru lofkvæði sem róma dáðir konunganna. Elstar eru Víkingavísur, líklega ortar um 1015, þar sem sagt er frá víkingaferli Ólafs konungs fram til þess tíma. Í kjölfarið komu Nesjavísur, þar sem Sighvatur lýsir sjóorrustu milli Ólafs og Sveins Hákonarsonar árið 1016 en Nesjaorrusta skipti sköpum í baráttu Ólafs til að komast í hásætið í Noregi.
Samkvæmt því sem segir í Heimskringlu var það Sighvatur sem valdi Magnúsi góða nafn og kom þar með Magnúsarnafninu inn í norræna nafnahefð. Móðir drengsins, frilla Ólafs konungs, ól hann að næturlagi og var honum ekki hugað líf, svo ákveðið var að skíra hann strax, en konungur var sofandi. Sighvatur taldi áhættuminna að velja barninu nafn en vekja konung og var drengurinn skírður. Þegar Ólafur vaknaði brást hann reiður við og spurði: „Hví léstu sveininn Magnús heita? Ekki er það vort ættnafn.“ Sighvatur svaraði þá: „Eg hét hann eftir Karla-Magnúsi konungi. Þann vissi eg mann bestan í heimi.“ Þetta svar dugði til að sefa reiði konungsins.
Um Sighvat er það sagt að hann var ekki hraðmæltur maður í sundurlausum orðum, en skáldskapur var honum svo tiltækur, að hann mælti af tungu fram svo sem annað mál. Einna þekktasta kvæði hans er Bersöglisvísur, sem ortar voru sem áminning til Magnúsar konungs góða þegar hann hafði nýtekið við konungdómi og þótti fara offari gegn þegnunum. Konungur hlýddi á ráðleggingar hans og breytti um stefnu.
Verk Sighvats
[breyta | breyta frumkóða]Það sem varðveist hefur af kveðskap Sighvats er þetta:
- Víkingavísur, um víkingaferðir Ólafs digra.
- Nesjavísur, um orrustuna við Nesjar.
- Austurfararvísur, um ferðalag til Svíþjóðar.
- Drápa um Ólaf konung.
- Vesturfararvísur, um ferðalag til Bretlands.
- Kvæði um Erling Skjálgsson.
- Flokkur um Erling Skjálgsson
- Tryggvaflokkur.
- Kvæði um Ástríði drottningu.
- Knútsdrápa, í minningu Knúts mikla.
- Bersöglisvísur, áminning til Magnúsar góða.
- Erfidrápa Ólafs helga.
- Lausavísur
- Brot úr ýmsum kvæðum og vísum.