Fara í innihald

Selvík (Skagafirði)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Selvík á Skaga)

Selvík er vík á austanverðum Skaga, um 35 kílómetrum norðan við Sauðárkrók. Þar er besta lendingin Skagafjarðarmegin á Skaganum og þaðan var löngum nokkur útgerð. Á eyðibýlinu Selnesi, við víkina norðanverða, má sjá greinilegar rústir verbúða. Þarna munu líka erlendir kaupmenn hafa verslað fyrr á öldum eins og örnefnið Þýskaleiði bendir til.

Selvík varð löggiltur verslunarstaður 27. nóvember 1903 og höfðu kaupmenn á Sauðárkróki þar verslunarútibú um skeið og ráku þar einnig fiskverkun. Nú er smábátahöfn í Selvík og gert þaðan út á grásleppu.

Selvík kom við sögu á Sturlungaöld en þaðan sigldi floti Kolbeins unga áleiðis til Vestfjarða um Jónsmessu 1244 en mætti skipum Þórðar kakala á miðjum Húnaflóa og hófst þá Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslandssögunnar.[1]

Í ágúst árið 1931 nauðlenti sjóflugvélin Súlan, sem hafði verið í síldarleit, á Skagafirði vegna vélarbilunar og rak inn eftir firðinum í átta klukkustundir í haugasjó en rétt áður en hana hefði rekið upp í kletta við Selvík tókst áhöfninni að gera fólki á Selnesi vart við sig með köllum. Kom þá vélbátur úr landi og dró flugvélina inn á víkina. Daginn eftir tókst áhöfninni að gera við vélina og fljúga á brott.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Þungi mikilla herja. Lesbók Morgunblaðsins, 9. júlí 1994.
  2. Þegar Súlan nauðlenti á Skagafirði. Tíminn, 23. desember 1959.
  • Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.
  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar I. bindi. Skefilsstaðahreppur - Skarðshreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 1999. ISBN 978-9979-861-18-8