Sauðafell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Sauðafell í Dölum.

Sauðafell er bær í Miðdölum í Dalasýslu og stendur undir felli með sama nafni. Bærinn er nefndur í Landnámu, kemur við sögu í Sturlungu og var einnig sögusvið atburða á siðaskiptatímanum. Sauðafell telst landnámsjörð, því að Erpur Meldúnsson, leysingi Auðar djúpúðgu, fékk Sauðafellslönd og bjó á Sauðafelli. Á 10. öld bjó þar að því er segir í Laxdælu Þórólfur rauðnef, sem var hetja mikil. Þá er sagt að á Sauðafelli væri allra manna gisting, enda er bærinn í þjóðbraut. Seinna bjó Máni sonur Snorra goða á Sauðafelli og síðan Ljótur sonur hans, en um 1200 keypti Sighvatur Sturluson jörðina og bjó þar og síðan Sturla sonur hans. Þekktasti atburðurinn sem tengist Sauðafelli er án efa Sauðafellsför í janúar 1229 og þau níðingsverk sem þá voru framin.[1]

Sauðafell var löngum setið af stórbrotnum höfðingjum. Nafnkenndastur þeirra var Sturla Sighvatsson (1199-1238) og Hrafn Oddsson (1226-1289), hirðstjóri, sat einnig Sauðafell um skeið.

Á 16. öld átti Daði Guðmundsson í Snóksdal bú á Sauðafelli. Jón Arason biskup kom haustið 1550 með Birni og Ara sonum sínum og flokki manna og settist í bú Daða. Daði safnaði þá liði og tókst að króa þá feðga af í kirkjugarðinum á Sauðafelli og handtaka þá. Eigi nutu þeir kirkjugriða. Þeir voru svo fluttir til Skálholts og hálshöggnir þar 7. nóvember 1550.

Að afloknu stúdentsprófi 1884 dvaldi Árni Þórarinsson, síðar prestur á Snæfellsnesi, um sumarið á Sauðafelli hjá Guðmundi Jakobssyni og Þuríði systur Árna og segir m.a. frá banvænni taugaveiki sem kom þá upp á Sauðafelli. Frá séra Jakobi Guðmundssyni, presti á Sauðafelli og þingmanni Dalamanna, segir skemmtilega í 4. bindi ævisögu Árna prests Þórarinssonar, á Snæfellsnesi. Séra Jakob var hestamaður, hagyrðingur góður og stundaði lækningar eins og fleiri prestar á þeirri tíð. Hann fékkst ennfremur við uppfræðslu barna og unglinga og hafði mikil menningarleg áhrif í héraði. Um skeið gaf hann t.d. út blaðið "Bóndi".

Í bók Björns Th. Björnssonar, Muggur, ævi hans og list, Helgafell 1960, er sagt frá því að Muggur hafi málað litlar landslagsmyndir í olíulitum á Sauðafelli og hafi orðið elskur að útsýninu fram í Hundadalina, séð af klettunum milli Sauðafells og Erpsstaða. Þá útsýn velur hann einnig fyrir smalamyndir líkar þeim sem hann gerði árið áður og fær þá einn af sonum Björns sýslumanns Bjarnarsonar til að sitja fyrir. Auk þess málar hann mynd af gömlu kirkjunni á Sauðafelli og aðra af bæjarhúsunum á Kvennabrekku. Þekktasta málverkið af Sauðafelli er eftir Collingwood en frummynd þess verks er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.

Björn Bjarnarson (1853-1918), sýslumaður, bjó á Sauðafelli 1891 til 1915. Hann var þingmaður Dalamanna um skeið og stofnaði Listasafn Íslands 1885. Gamla sýslumannshúsið á Sauðafelli, sem var endurbyggt af miklum myndarbrag á árunum 2013 til 2016, var upphaflega reist 1897.

Finnbogi Finnsson ( -1953) og Margrét Pálmadóttir (1866-1935), sem bjuggu þá á Svínhóli, keyptu Sauðafell 1918 og bjuggu þar til æviloka og hvíla í kirkjugarðinum á Sauðafelli. Frá þeim Sauðafellshjónum er stækkandi ættbogi og barnabörn þeirra stóðu árið 2016 að útgáfu á ljóðum Margrétar, Ljóð Margrétar Pálmadóttur frá Sauðafelli, Reykjavík 2016. Þar er eftirfarandi stöku að finna:

Mundu það helga og háa

því hjartanu veitir það frið.

Líttu á það auma og lága

og láttu það koma þér við.

Breskur loftvarnarbelgur, sem slitnað hafði frá Bretlandi í seinni heimsstyrjöldinni og hrakist til Íslands, náðist við Sauðafell í nóvember 1940.

Kirkja var á Sauðafelli til 1919 en var þá rifin og lögð af þegar ný kirkja var reist á Kvennabrekku.

SAUÐAFELL

Sólin á Sauðafelli

seinustu geislum slær.

Miðá til marar rennur

makráð og silfurtær.

Svipfögur bygðin brosir.

Blána hnúkar í firð.

Speglar þá fagurfægður

fjörður í aftankyrð.

Ofan af enda fellsins

inndæl er vestursjón;

hingað harðsnúinn Daði

heimsótti meistara Jón.

Þannig orti Hallgrímur Jónsson. Birt í Óðni 1919.

-----

Örlítill hluti íslensku gamanmyndarinnar Kurteist fólk, frá 2011, var tekin upp við kirkjugarðinn á Sauðafelli og í gamla sýslumannshúsinu áður en það var gert upp.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Guðrún Nordal, 1998. Ethics and Action in Thirteenth-Century Iceland, Viking Collection 11 (Odense: Odense University Press), bl. 89–99; Jonathan Grove, 2008. ‘Skaldic verse-making in thirteenth-century Iceland: the case of the Sauðafellsferðarvísur’, Viking and Medieval Scandinavia 4 (2008), 85-131