Fara í innihald

Samvinnufélag Ísfirðinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Samvinnufélag Ísfirðinga var samvinnufélag um útgerð sem stofnað var í árslok 1927 á Ísafirði og lagðist af 1950. Fyrsta skip félagsins var vélbáturinn Sæbjörn og kom hann til Ísafjarðar 23. desember 1928. Um svipað leyti komu komu fjögur sams konar skip Ísbjörn, Ásbjörn, Vébjörn og Valbjörn til Ísafjarðar en þau voru í eigu félagsmanna í Samvinnufélagi Ísfirðinga. Í árslok 1929 bættust við Auðbjörn og Gunnbjörn. Rekstur skipanna gekk giftusamlega að ððru leyti en því að Ísbjörn fórst 7. mars 1940 austan við Skálavík en mannbjörg varð. Samvinnufélag Ísfirðinga var fyrsta útgerðarfélagið á Íslandi sem stofnað var með samvinnusniði.

Samvinnufélag Ísfirðinga var stofnað vegna erfiðrar stöðu í atvinnumálum á Ísafirði árin 1926-27. Allir helstu útgerðarmenn í bænum hættu þá rekstri og flestir stærri bátanna voru seldir eða fluttir burt. Íslandsbanki auglýsti 11 skip til sölu í Vesturlandi 20. janúar 1927. Bærinn keypti Hæstakaupstað 1924 en fram að þeim tíma hafði bærinn ekki neitt hafnarmannvirki heldur voru eingöngu á Ísafirði þá nokkrar hafskipabryggjur í einka eign. Á stofnfundi félagsins skrifuðu 19 einstaklingar sig sem stofnfélaga en 136 manns skrifuðu sig næstu daga. Allir sjómenn og verkamenn gátu orðið stofnfélagar gegn 10 króna inntökugjaldi og loforði fyrir 50 króna framlagi. Í janúar 1928 sendi stjórn S.í. Alþingi bréf þar sem farið var fram á ríkisábyrgð vegna lána til skipakaupa og að því fengnu fóru erindrekar erlendis til að semja um kaup og smíði skipa.

Samvinnufélagið rak saltfiskverkun, íshús, lýsisbræðslu og síldarsöltunarstöð fyrstu árin sem það starfaði og sá um innkaup á útgerðarvörum og reikningshald fyrir báta félagsmanna. Bátarnir skiptu árinu milli þorskveiða og síldveiða, voru á línuveiðum fram á vor en fóru þá á síldveiðar, á haustin var veiddur smokkfiskur í beitu og svo róið með línu til áramóta. Rekstur SÍ gekk vel árið 1929 og skilaði hagnaði en heimskreppan skall á og verð lækkaði á saltfiski og erfitt varð að selja fiskafurðir. Tap var á rekstrinum næstu ár nema árið 1932 en það ár var metafli í síldveiðum. Þann 23. des 1930 var samþykkt á félagsfundi að Samvinnufélagið keypti báta félagsmanna og yfirtæki skuldir sem á bátunum hvílud og átti SÍ eftir það eða "Birnina" sjö eða "Rússana" eins og bátarnir voru kallaðir. Árið 1935 fór saman lítill afli, lágt verð og erfiðleikar við að selja fisk. Samvinnufélagið fékk fyrirgreiðslu frá Skuldaskilasjóði vélbáta eigenda sem stofnaður var 1935 í því augnamiði að veita eigendum vélbáta lán og aðstoð við að ná fram samningum um eftirgjf skulda og hagkvæm lánskjör. Umskipti urðu eftir að heimstyrjöldin skall á og fiskverð hækkaði og siglt var með ísfisk til Bretlands. Bátar Samvinnufélagsins lönduðu afla í togara eða sérstök fiskflutningaskip. Hagnaður varð af rekstri félagsins en bátar þess gengu úr sér og reksturinn lognaðist út af.