Sake

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sake í glæru glasi

Sake (japanska: 酒) er hrísgrjónavín sem búið er til með því að gerja afhýdd pússuð hrísgrjón. Ólíkt víni sem er búið til með því að gerja sykurinn sem finnst náttúrulega í ávöxtum, einkum vínberjum, er sake framleitt með bruggun og ferlið er því líkara bjórframleiðslu. Sterkja í hrísgrjónunum breytist í sykur sem gerjast svo í alkóhól.

Munurinn á bjórframleiðslu og sakeframleiðslu er sá að í bjórframleiðslu breytist sterkja í sykur á einu stigi og sykurinn gerjast svo í alkóhól á öðru stigi en við framleiðslu á sake eiga þessi tvö ferli sér stað á sama tíma. Þar að auki er mismikið alkóhól í sake, víni og bjór. Í víni er yfirleitt milli 9%–16% alkóhól, bjór inniheldur yfirleitt 3%–9% alkóhól en sake inniheldur um það bil 18%–20%. Sake er þó oft þynnt með vatni niður í 15% alkóhólstyrk áður en það er átappað.

Á japönsku getur orðið sake (酒 „áfengi“) átt við hvaða áfengan drykk sem er. Í Japan kallast sake yfirleitt nihonshu (日本酒 „japanskur drykkur“). Sake er þjóðardrykkur Japans og þess er oftast neytt á hátíðum. Hefð er fyrir að hita sake örlítið í sérstakri postulínsflösku sem heitir tokkuri áður en þess er neytt. Því er þá hellt í litlan postulínsbolla sem heitir sakazuki og sopið.

  Þessi Japans-tengd grein sem tengist mat eða drykk er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.