Safnasafnið
65°44′56″N 18°4′33″V / 65.74889°N 18.07583°V
Safnasafnið er safn á Svalbarðseyri við Eyjafjörð sem safnar, rannsakar, varðveitir og sýnir íslenska alþýðulist eða list eftir sjálfmenntaða listamenn, samhliða íslenskri samtímalist.[1]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Safnasafnið var stofnað 17. febrúar árið 1995[2], af hjónunum Níelsi Hafstein myndlistarmanni og Magnhildi Sigurðardóttur geðhjúkrunarfræðingi.
Húsið
[breyta | breyta frumkóða]Húsnæði safnsins samanstendur af gamla barnaskólanum, sem var þinghús Svalbarðsstrandarhrepps, og kaupfélagshúsinu sem var kallað Gamla-Búð og var byggt árið 1900 á Svalbarðseyri en flutt á safnlóðina 2006 og gert upp. Húsin tvö voru tengd saman með viðbyggingu sem Ragnheiður Þóra Ragnarsdóttir[3] teiknaði. Safnið opnaði í núverandi mynd árið 2007. Sýningarrými safnsins er samtals 474 fermetrar og samanstendur af tíu misstórum sölum.
Útgáfur
[breyta | breyta frumkóða]Safnasafnið hóf útgáfu á sýnisbókum[4] sínum árið 2016, það hefur gefið út 9 bækur í árslok 2022. Þær eru flestar unnar samkvæmt úttektum fyrir sýningar eða rannsóknum á verkum einsaklinga. Þannig heldur safnið utan um eign sína, sem kalla má framlag til sögu íslenskrar alþýðulistar, og getur miðlað henni til fleira fólks heldur en árlegra gesta[5].
Safneign og heimildasöfn
[breyta | breyta frumkóða]Grunnsafneign safnsins telur um 150.000 verk og muni, gerð af rúmlega 300 lærðu og sjálflærðu listafólki, frá miðri nítjándu öld til dagsins í dag. Safnasafnið safnar, varðveitir og heldur utan um heimildir um alþýðulist, sjálf-sprotna list, list eftir einfara í myndilst og list fjölbreytilega fatlaðs listafólks. Safnið heldur úti sýningaraðstöðu sem samanstendur af 10 sölum og heldur árlega sumarsýningu þar sem lögð er áhersla á að leggja fjölbreytilega alþýðulist og handverk að jöfnu við list eftir skólagengna samtíma listamenn og konur. Safnið er meðlimur í Europian Outsider Art Association [6]og er með stóran hluta safneignar skráðan á Sarpi, miðlægum gagnagrunni íslenskra safna[7].
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Safnasafnið - Höfuðsafn íslenskar alþýðulistar“. Safnasafnið (bresk enska). Sótt 8. nóvember 2022.
- ↑ „Fréttablaðið - 130. tölublað (10.06.2020) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 8. nóvember 2022.
- ↑ „„Arkitektúr og myndlist eru systkin““. www.mbl.is. Sótt 8. nóvember 2022.
- ↑ „Sýningarskrár“. Safnasafnið (bresk enska). Sótt 8. nóvember 2022.
- ↑ „Sögur úr Safnasafni | Listasafn Reykjanesbæjar“. listasafn.reykjanesbaer.is. Sótt 8. nóvember 2022.
- ↑ „Safnasafnið, Alþýðulistasafn Íslands“. www.outsiderartassociation.eu. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. nóvember 2022. Sótt 8. nóvember 2022.
- ↑ „Sarpur.is - Nýjustu færslurnar“. Sarpur.is - Nýjustu færslurnar. Sótt 8. nóvember 2022.