Fara í innihald

Síkismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gullhofið í Amritsar er heilagasta bygging síka.

Síkismi (púnjabíska: ਸਿੱਖੀ) er eingyðistrú byggð á kenningum tíu gúrúa sem lifðu á 16. og 17. öld á norðurhluta Indlands. Síkismi er ein af stærri trúarbrögðum heims með yfir 23 milljónir trúaðra. Orðið síkismi er dregið af orðinu sikh, úr sanskrít śikkya (शिष्य) sem þýðir „nemandi“ eða „fylgjandi“ eða frá samsvarandi palíska orðinu sikkhā (सिक्खा).

Þeir sem fylgja síkisma eru nefndir síkar. Trúaðir síkar drekka ekki áfengi, nota ekki önnur fíkniefni og borða ekki kjöt. Síkar trúa á karma og endurfæðingu eins og hindúar, en hafa hins vegar aðeins einn guð.

Tvær meiginstoðir síkisma eru:

  • Trú á einn guð: Upphafssetning ritningar síka er einungis tvö orð og þau lýsa grundvallartrú þeirra: ek onkar eða „einn skapari“
  • Fylgjendum síkisma er gert að fylgja kenningum hinna tíu gúrúa síka og annarra dýrlinga eins og þeim er lýst á 1430 blaðsíðum heilagrar ritningar þeirra, Guru Granth Sahib.

Guru Granth Sahib er heilagur texti í augum Síka og álíta þeir hann vera ellefta og síðasta gúrúinn. Heimspeki síkisma einkennist af því að bæði andleg og veraldleg verkefni eru meðhöndluð með rökum.

Tíundi og síðast mannlegi gúrúinn, Guru Gobind Singh, skapaði khalsa-regluna, sem er bæði trúarleg og veraldleg regla. Öllum meðlimum í reglunni, sem eru flestir karlkyns síkar, er ætlað að ætíð bera á sér það sem er nefnt káin fimm:

  1. Kesh, hreint og vel hirt, en óklippt hár hulið með túrban, ásamt skeggi sem táknar andleika.
  2. Kanga, greiða fyrir hár og skegg sem táknar andlega ögun og hreinlæti.
  3. Kirpan, hnífur sem táknar virðuleika og sjálfsvirðingu.
  4. Kach, nærbuxur sem tákna siðsemi í kynlífi og skírlífi.
  5. Kara, handleggshringur úr járni sem er hafður á hægri handlegg og táknar eilífðina, trú á guð, og samfélag síka og guðs.

Samkvæmt Indverskum trúarbrögðum er gúrú sá sem kennir eða leiðbeinir fólki um trúarbrögð, en í Síkisma eru gúrúar guðir og leiðtogar Síka. Í Síkisma eru tíu gúrúar ásamt hinum eilífa ellefta gúrú, Guru Granth Sahib, sem er heilög ritning Síka.[1]

Guru Nanak Dev

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Nanak Dev var upphafsmaður Síkisma og fyrsti gúrú Síka. Hann var fæddur árið 1469 í þorpi sem kallast Talwandi sem er staðsett í þeim hluta Punjab sem nú tilheyrir Pakistan, hann lést árið 1539. Sem barn var Nanak bæði tillitsamur og gáfaður, hann safnaði oft saman vinum sínum undir tréi og söng með þeim til að tilbiðja Guð. Hann var einfaldur maður, vildi einfaldan mat og einföld föt, og hann elskaði og hjálpaði þeim fátæku. Þegar kom að námi var Nanak sendur til þorpsprestsins til að að læra Hindí og talnareikning, hann var fljótur að læra að lesa og skrifa. Eftir einhvern tíma við það að kenna Nanak sagði kennarinn við hann að hann væri orðinn kennarinn sinn, því hann hafði lært svo mikið af honum. Þá var Nanak sendur til kennara sem var Múslimi, þar lærði hann persnesku, hana lærði hann einnig á stuttum tíma og þegar Nanak fór að tala um Guð þá varð kennarinn undrandi og beygði sig fyrir honum.[a][2] Nanak ferðaðist mikið um ævi sína og fór hann í fjögur umfangsmikil ferðalög (Udasis) þar sem hann ferðaðist um stóran hluta Indlandsskagans ásamt því að ferðast til Ceylon, Tíbet, Mekka, Baghdad, Íran, Afghanistan og til margra annarra staða.[b] Guru Nanak Dev kenndi að það er aðeins einn guð, hann er frjáls úr fjötrum fæðingar og dauða, hann er alls staðar og hann er almáttugur. Það ætti alltaf að muna eftir Guð, það ætti ekki að lítillækka hann með því að búa til myndir af honum og tilbiðja þær. Markmið lífsins er að vera einn með Guði og til að ná þessu markmiði þarf að losa sig við egóið.[c]

Guru Angad Dev

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Angad Dev var fæddur árið 1504 í litlu þorpi nálægt Ferozepur sem er staðsett í þeim hluta Punjab sem nú tilheyrir Indlandi, hann lést árið 1552.[d] Í þorpinu þar sem Angad bjó bjó einnig fylgjandi Guru Nanak Dev, einn morguninn var þessi fylgjandi Nanak að syngja heilagan sálm, þegar Angad hlustaði á þennan sálm þá upplifði hann friðsæld og hugarró. Angad spurði manninn hver hefði samið þennan sálm og fékk það svar að Guru Nanak Dev hefði samið hann. Þegar Angad átti næst leið hjá þorpinu þar sem Nanak bjó stoppaði hann þar og ákvað að hitta hann. Þegar hann kom inn í þorpið spurði hann gamlan mann hvar hann gæti fundið Nanak, hann sýndi honum leiðina og þegar að þeir komu á staðinn þá sá Angad að maðurinn sem hafði fylgt honum var í raun Guru Nanak Dev. Nanak talaði við Angad um hinn sanna skapanda og var Angad svo hrifinn af boðskap hans að hann ákvað að verða fylgjandi hans og að tilbiðja aðeins einn guð. Angad flutti til þorpsins þar sem Nanak bjó og fylgdi honum í einu og öllu. Hann gerði hina fylgjendurna svo afbrýðisama að þeir fóru að gera það sama og hann en þeir þoldu það ekki lengi. Á þessari stundu áttaði Nanak sig á því að hann hafði fundið sannan arftaka, svo þegar það kom að því að Nanak var að deyja þá bað hann Angad um að verða gúrú, þar með varð hann Guru Angad Dev.[e]

Guru Amar Das

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Amar Das var fæddur árið 1479 í þorpinu Basarke í þeim hluta Punjab sem nú tilheyrir Indlandi, hann lést árið 1574. Frændi hans var giftur Bibi Amro sem var dóttir Guru Angad Dev, á hverjum morgni söng hún sálma sem voru samdir af Nanak, Amar Das spurði hana eitt sinn hver hefði samið sálmana sem hún söng, þegar hann heyrði að það hefði verið forveri föður hennar, Guru Nanak Dev, þá ákvað hann að hitta Guru Angad Dev. Hann ferðaðist til Angad og þegar hann kom til hans féll hann niður að fótum gúrúsins og bað hann um að gera hann að síka og að leyfa honum að þjóna sér. Angad leyfði þetta og frá þessu augnabliki var Amar Das einfaldlega þræll Angad, hann gleymdi heimili sínu og fjölskyldu sinni og tók að sér erfitt líf við það að þjónusta Angad. Eftir ellefu ár sem þjónn Angad var Amar Das tilnefndur sem þriðji gúrúinn, hann hafði þróað með sér þolinmæði, umburðarlyndi, auðmýkt og kærleika.[f] Guru Amar Das var langlífasti gúrúinn en hann lést þegar hann var 95 ára eftir að hafa verið gúrú í 22 ár.[g]

Guru Ram Das

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Ram Das fæddist árið 1534 í Lahore sem er í þeim hluta Punjab sem nú tilheyrir Pakistan, hann lést árið 1581. Hann fór með öðrum síkum til Guru Amar Das til að votta honum virðingu sína, Ram Das var svo hrifinn af því sem Amar Das kenndi að hann varð að fylgjenda hans. Amar Das var afar glaður með það, Ram Das eldaði fyrir hann ásamt því að ná í vatn og eldivið fyrir hann. Ram Das giftist dóttur Amar Das þegar hún var orðin nógu gömul, Ram Das hélt áfram að vinna sem þjónn Amar Das þótt hann væri orðinn tengdasonur hans, margir hlógu að þessu en honum var alveg sama og hélt bara áfram að vinna. Einn dag bað Amar Das elsta tengdason sinn, Rama, og Ram Das að byggja fyrir sig einhvers konar pall svo hann gæti fylgst með framkvæmdum sem voru í gangi. Eftir að báðir höfðu byggt pall bað hann þá um að rífa þá niður og byggja nýja, þetta ferli hélt áfram í einhvern tíma. Þetta var leið Amar Das til að finna út hvor þeirra væri hæfari til að vera gúrú. Eftir að hafa gert þetta nokkrum sinnum varð Rama reiður og neitaði að byggja nýjan pall og fór, Ram Das viðurkenndi þó að pallurinn hans væri ekki nógu góður og baðst fyrirgefningar, svo byggði hann annan pall. Amar Das tilkynnti þá að Ram Das væri nýr gúrú síka.[h]

Guru Arjan Dev

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Arjan Dev var fæddur árið 1563 í Goindwal sem er í þeim hluta Punjab sem er staðsettur í Indlandi, hann lést árið 1606. Hann var sonur Guru Ram Das.[i] Þegar kom að því að velja eftirmann sinn lagði Ram Das nokkur próf fyrir syni sína þrjá og hljóðuðu niðurstöðurnar þannig að Arjan Dev var hæfastur, Guru Amar Das hafði spáð fyrir þessu.[j] Arjan Dev var fyrsti píslarvottur síka, þetta kom til þegar Jahangir keisari Mughala hóf að ofsækja alla þá sem voru ekki múslimar. Arjan Dev var pyntaður til dauða. Með því að vera píslarvottur kenndi Arjan Dev síkum að gefast upp fyrir vilja Guðs.[k]

Guru Har Gobind

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Har Gobind var fæddur árið 1595 í þorpinu Wadali sem er í þeim hluta Punjabi sem nú tilheyrir Indlandi, hann lést árið 1644, hann var sonur Guru Arjan Dev. Þegar hann var ungabarn reyndi bróðir Arjan Dev, Prithi Chand, og kona hans að drepa hann til þess að barn þeirra gæti orðið gúrí. Það virkaði þó ekki og lifði hann því. Har Gobind var einungis ellefu ára þegar faðir hans Arjan Dev var drepinn og hann varð næsti gúrú, Arjan Dev hafði sent síka til hans til að segja honum að safna saman her til að vera tilbúinn öllu. Har Gobind safnaði saman síkum til að mynda her, hann hafði 52 hermenn, 700 hesta, 300 hestamenn, 60 byssumenn og svo voru 500 ungir menn sem mynduðu fótgöngulið.[l]

Guru Har Rai

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Har Rai var fæddur árið 1630 í Katarpur, hann var sonur Baba Gurditta sem var var elsti sonur Guru Har Gobind. Hann lést árið 1661.[m] Þegar kom að því að velja eftirmann sinn þá þurfti Guru Har Gobind að velja á milli sona sinna, Suraj Mal og Tegh Bahdur, hann átti annan son, Gurditta, sem hafði látist, hann skildi þó eftir sig syni, Dhir Mal og Har Rai. Har Gobind fannst synir sínir ekki vera nógu góðir til að taka við af sér svo hann valdi Har Rai, þá var Har Rai einungis fjórtán ára.[n]

Guru Har Krishan

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Har Krishan var fæddur árið 1656 í Kiratpur og var yngri sonur Guru Har Rai. Hann var skipaður gúrú árið 1661 þegar hann var fimm ára og þriggja mánaða, þrátt fyrir ungan aldur þá lofaði hann rólegum anda, hann fylgdi eftir þessu með því að síkum ráð og losaði þá við allan efa. Allar hans ákvarðanir báru með sér merki þroska. Hann fékk ýmis ráð frá eldri síkum og frá móður sinni.[o]

Guru Tegh Bahadur

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Tegh Bahadur var fæddur árið 1621 í Amritsar, hann var yngsti sonur Guru Har Gobind, hann lést árið 1675. Þegar það kom að því að velja nýjan gúrú þá hafði Guru Har Krishan sagt að nýji gúrúinn byggi í þorpi sem hét Bakala og að hann hafi verið bróðir afa síns. Þegar þessar fregnir bárust þá fóru margir að segjast vera hinn nýji gúrú, en sá sem var áhrifamestur af þeim var Dhir Mal, frændi Tegh Bahadur. Síkar frá Kiratpur heimsóttu Bakala og settu Tegh Bahadur sem gúrú, falsgúrúarnir kölluðu það fals.[p] Maður að nafni Makhan Shah kom til Bakala staðráðinn í því að komast að því hver væri alvöru gúrúinn. Fyrir ferðina til Bakala hafði hann beðið til gúrúsins um að forðast öll vandræði á leiðinni til Bakala og lofaði 500 gull myntum. Þegar hann kom til Bakala heimsótti hann alla sem sögðust vera nýji gúrúinn og bauð þeim tvær gull myntir, enginn þeirra spurði hann hvar hinar 498 myntirnar voru og spurði því hvort það væri einhver annar sem kæmi til greina. Þá var honum beint á Tegh Bahadur, þegar hann bauð honum myntirnar þá spurði hann hvort þær hefðu ekki átt að vera 500, eftir það var Tegh Bahadur samþykktur af síkum sem hinn sanni nýji gúrú.[q]

Guru Gobind Singh

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Gobind Singh var fæddur árið 1666 í Patna, hann var eini sonur Guru Tegh Bahadur, hann lést árið 1708.[r] Þegar Gobind Singh var níu ára var Tegh Bahadur drepinn og Gobind var fært höfuð hans, hann brenndi höfuðið á meðan fólk söng sálma. Árið 1676 var hann settur sem nýr gúrú síka.[s]

Guru Granth Sahib

[breyta | breyta frumkóða]

Guru Granth Sahib er hinn svokallaði eilífi gúrú síka. Guru Granth Sahib er bók sem inniheldur ljóð sem hafa verið skrifuð af gúrúum. Almennt lýsir Granth Sahib eðli tilverunnar og eðli dauðans.[3] Þessum ljóðum hefur verið lýst þannig að þetta eru ekki einhver heimspekileg fræðirit eða sem lög sem eiga að vera lesin í þögn heldur sem trúarleg ljóð sem eiga að vera sungin eða kveðin.[4] Guru Granth Sahib byrjar á fullyrðingu sem hljóðar svona: „Einn alheimsskapandi Guð. Nafnið er sannleikur. Persónugerð skapandi vera. Enginn ótti. Ekkert hatur. Mynd af þeim ódauðlegu, umfram fæðingu, sem lifir óháð öðru. Fyrir náð Gúrúsins.“[5] Þetta er grundvallaratriði í Síkisma og er þessi fullyrðing kölluð Mool Mantra.[t]

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. (Gogia, Sawan Singh, bls. 2)
  2. (Gogia, Sawan Singh, bls. 3)
  3. (Gogia, Sawan Singh, bls. 7)
  4. (Gogia, Sawan Singh, bls. 12)
  5. (Gogia, Sawan Singh, bls. 13)
  6. (Gogia, Sawan Singh, bls. 17-18)
  7. (Gogia, Sawan Singh, bls. 20)
  8. (Gogia, Sawan Singh, bls. 24)
  9. (Gogia, Sawan Singh, bls. 28)
  10. (Gogia, Sawan Singh, bls. 26)
  11. (Gogia, Sawan Singh, bls. 32-33)
  12. (Gogia, Sawan Singh, bls. 36-37)
  13. (Gogia, Sawan Singh, bls. 42)
  14. (Gogia, Sawan Singh, bls. 43)
  15. (Gogia, Sawan Singh, bls. 46)
  16. (Gogia, Sawan Singh, bls. 49-50)
  17. (Gogia, Sawan Singh, bls. 50)
  18. (Gogia, Sawan Singh, bls. 57)
  19. (Gogia, Sawan Singh, bls. 58)
  20. (Gogia, Sawan Singh, bls. 77)
  1. Bowker, John (2003). World Religions: The great faiths explored & explained. DK Publishing, Inc. bls. 84.
  2. Gogia, Sawan Singh. From Guru Nanak to Guru Granth Sahib.
  3. Murphy, Anne (2007). „History in the Sikh Past“. History & Theory. 46 (3): 345–365. doi:10.1111/j.1468-2303.2007.00414.x. Sótt 27. október 2013.
  4. Shackle, Christopher; Mandair, Arvind (2005). Teachings of the Sikh Gurus: Selections from the Sikh Scriptures. Routledge. bls. xx.
  5. Guru Granth Sahib. bls. 1.