Roslin
Roslin (áður skrifað Rosslyn eða Roslyn) er þorp í Midlothian í Skotlandi rétt sunnan við Edinborg. Þorpið stendur í Roslindal á norðvesturbakka árinnar Lothian Esk. Orrustan um Roslin var mikilvæg orrusta í Fyrsta sjálfstæðisstríði Skota árið 1303. Þá hafði Sinclair-ætt gert þorpið að heimabæ sínum. Roslinkastali var reistur af þeim frá 14. öld. Árið 1446 lét William Sinclair, 1. jarl af Katanesi reisa Rosslyn-kapellu við kastalann. Dalurinn, kastalinn og kapellan urðu vinsælir áfangastaðir ferðamanna á 19. öld. Kastalinn er enn í eigu jarlsins af Rosslyn sem nú er Peter St Clair-Erskine.
Roslinstofnunin, rannsóknarstofnun í líffræði þar sem kindin Dollý var klónuð árið 1996, var áður staðsett í þorpinu en flutti árið 2011 til Edinborgar.