Fara í innihald

Robert Guérin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Robert Guérin
Guérin árið 1906.
Fæddur28. júní 1876
Dáinn19. mars 1956 (79 ára)
ÞjóðerniFranskur
StörfÍþróttaforkólfur
Þekktur fyrirað vera fyrsti forseti FIFA

Robert Guérin (28. júní 187619. mars 1956) var franskur íþróttafrömuður og fótboltaþjálfari. Hann var fyrsti forseti alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

Ferill og störf[breyta | breyta frumkóða]

Guérin vakti ungur athygli sem íþróttablaðamaður hjá Le Matin þar sem hann skrifaði sérstaklega um málefni knattspyrnunnar. Hann ritaði fjölda greina þar sem hann hvatti til þess að reglur íþróttarinnar yrðu staðlaðar og að komið yrði upp heimsknattspyrnusambandi og að innan hvers ríkis starfaði aðeins eitt knattspyrnusamband. Tilgangurinn með þessu var fyrst og fremst að greiða fyrir því að unnt væri að skipuleggja alþjóðleg fótboltamót.

FIFA var stofnað á grunni þessara hugmynda af fulltrúum sjö Evrópulanda í París þann 21. maí 1904 og var hinn 28 ára gamli Guérin kjörinn fyrsti forseti þess. Engir fulltrúar frá Bretlandseyjum tóku þátt í stofnuninni. Bretland var vagga knattspyrnuíþróttarinnar og þar á bæ litu menn á hin nýju samtök sem tilraun til að grafa undan stöðu sinni sem regluverðir íþróttarinnar, auk þess sem hvert bresku landanna hafði sitt eigið knattspyrnusamband. Árið eftir féllust bresku samböndin þó á að ganga til liðs við FIFA að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Forsetatíð Guérin varð styttri en búist hafði verið við. Þegar kom að næsta FIFA-þingi árið 1906 mætti hann ekki til leiks eftir að hafa orðið undir í átökum innan franska knattspyrnusambandsins og þar sem ljóst var að hugmyndir hans um að efna til heimsmeistaramóts í knattspyrnu í Sviss árið 1906 fóru út um þúfur.