Rijksmuseum
Rijksmuseum er ríkissafn Hollands í Amsterdam. Það hefur að geyma talsvert af málverkum hollensku meistaranna, þar á meðal eftir Rembrandt, Jan Vermeer, Jan Steen og fleiri.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Safnið var stofnað árið 1800 í borginni Haag til að halda utan um málverkasafn landstjóranna í Hollandi. Á þessum tíma voru Frakkar við völd í landinu. 1808 ákvað Loðvík Bonaparte að flytja safnið til Amsterdam, þar sem hann sat sem konungur. Samtímis því voru málverk í eigu borgarinnar tekinn inn í safnið, til dæmis Næturvaktin eftir Rembrandt. Árið 1863 var haldin samkeppni um nýtt safnahús í borginni sem hýsa ætti málverkin. Framkvæmdir við nýtt hús hófust þó ekki fyrr en 1876 og var byggingin formlega vígð 13. júlí 1885. Safnið stendur við torgið Museumplein, en þar standa fleiri söfn, svo sem Van Gogh safnið og tónlistarhúsið (Concertgebouw). 1890 var byggingin stækkuð, en efniviðurinn var tekinn úr sögulegum byggingum sem voru rifin á svipuðum tíma. Síðustu lagfæringar og endurbætur fóru fram 2003.
Bókasafn
[breyta | breyta frumkóða]Í ríkissafninu er bókasafn, Rijksmuseum Research Library. Það er stærsta opinbera bókasafn um listasögu í Hollandi. Þar er að finna um 140 þúsund verk, 3.200 fagtímarit og ýmislegt annað. Í upphafi var bókasafnið í aðalbyggingunni, en við endurbæturnar 2003 var það flutt í annað hús.
Málverk
[breyta | breyta frumkóða]Málverkin í safninu eru aðallega frá gullaldartímabili Hollands, þ.e. 16. öldinni. Ýmsir meistarar þessa tíma eiga verk í safninu. Nokkur þekkt málverk:
Rembrandt
[breyta | breyta frumkóða]Rembrandt á alls 19 málverk í safninu. Þau helstu eru:
- Næturvaktin
- Gyðingabrúðurin
- Sjálfsmynd frá 1629
- María Trip
- Liðssveit Frans Banning Cocq og Willems van Ruytenburch
- Pétur postuli afneitar Jesú
- Sjálfsmynd sem Páll postuli
Jan Vermeer
[breyta | breyta frumkóða]- Kona með mjólkurkrús
- Ástarbréfið
- Kona að lesa bréf
- Litla gatan
Jan Steen
[breyta | breyta frumkóða]- Borgarstjórinn í Delft
- Nikulásarhátíðin
- Drukkna parið
- Adolf og Catharina Croeser
- Arent Oostwaard og eiginkona hans
- Börn kenna ketti að dansa
- Morgunsnyrtingin
Aðrir meistarar
[breyta | breyta frumkóða]Aðrir meistarar safnsins eru Cornelis van Haarlem, Melchior d‘Hondecoeter, Pieter de Hooch, Meindert Hobbema, Geertgen tot Sint Jans, Bartholomeus van der Helst, Gabriël Metsu, Dirck van Baburen, Jan Asselijn, Frans Hals, Jan Corneliszoon, Jakob van Ruysdael og Jan van Scorel.
Schiphol
[breyta | breyta frumkóða]Ríkissafnið er með lítil útibú á flugvellinum í Schiphol. Það var opnað 9. desember 2002 af Willem Alexander, krónprinsi í Hollandi. Sýning þessi er breytileg, þar sem sífellt er verið að skipta um málverk. Þar með er Schiphol flugvöllur sá fyrsti í heimi með útibú málverkasafns.
-
Borgarstjórinn í Delft eftir Jan Steen
-
Vindmyllan við Duurstede eftir Jakob van Ruisdael
-
Hjón í garði eftir Frans Hals
-
Stúlka í bláum kjól eftir Jan Corneliszoon
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Rijksmuseum Amsterdam“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. september 2011.