Fara í innihald

Ranavalona 1.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Hova-ætt Drottning Madagaskar
Hova-ætt
Ranavalona 1.
Ranavalona 1.
Ríkisár 11. ágúst 182816. ágúst 1861
SkírnarnafnRabodoandrianampoinimerina
Fædd1778
 Ambatomanoina, Madagaskar
Dáin16. ágúst 1861
 Antananarívó, Madagaskar
GröfAmbohimanga, Antananarívó, Madagaskar
Konungsfjölskyldan
Faðir Andriantsalamanjaka
Móðir Rabodonandriantompo
EiginmennRadama 1.
Rainiharo
Rainijohary

Ranavalona 1. (fædd undir nafninu Rabodoandrianampoinimerina; 1778 – 16. ágúst 1861), einnig kölluð Ramavo og Ranavalo-Manjaka 1., var drottning Madagaskar frá 1828 til 1861. Hún tók við völdum eftir að eiginmaður hennar og frændi, Radama 1.,[1] lést. Sem drottning eyríkisins beitti Ranavalona sér fyrir einangrun og sjálfbærni og dró úr efnahags- og stjórnarsamskiptum við Evrópuveldin. Meðal annars leiddi hún varnir gegn árás Frakka á hafnarbæinn Foulpointe og beitti harkalegum aðferðum til að útrýma vaxandi samfélagi kristinna Malagasa sem hafði orðið til á valdatíð eiginmanns hennar. Ranavalona beitti nauðungarvinnu til þess að vinna ýmis byggingarverkefni og til að halda uppi ríkisher sem hún beitti til að ná stjórn á útjöðrum eyjunnar og þenja út ríki sitt. Vegna stríðsátaka, farsótta, nauðungarvinnu og harkalegs réttarkerfis var dauðsfall hátt bæði meðal hermanna og almennra borgara á ríkisárum Ranavalonu.

Þrátt fyrir einangrunarstefnu Ranavalonu dvínaði áhugi Frakka og Breta á Madagaskar ekki á ríkisárum hennar. Í madagösku hirðinni skiptust menn í fylkingar milli einangrunarsinna og þeirra sem vildu rækta nánara samband við Evrópu. Evrópskir nýlendusinnar reyndu að nýta sér ágreininginn til að koma syni Ranavalonu, Radama 2., til valda í hennar stað. Ungi prinsinn var ósammála móður sinni í mörgum efnum og var jákvæður gagnvart tilþreifunum Frakka eftir einkarétti á auðlindum eyjunnar. Radama undirritaði samkomulag við Frakka um nýtingu madagaskra auðlinda árið 1855 en áætlanir um að koma honum til valda í stað Ranavalonu rættust aldrei og hann komst ekki til ríkis fyrr en hún lést árið 1861.

Samtímamenn Ranavalonu í Evrópu fordæmdu almennt stefnur hennar og útmáluðu hana ýmist sem harðstjóra eða hreinlega sem geðsjúkling og kölluðu hana gjarnan „kvenkyns Calígúla“.

Ranavalona fæddist undir nafninu Ramavo árið 1778 nálægt Antananarívó. Hún var ekki af konunglegum ættum, en eftir að faðir hennar varaði konunginn Andrianampoinimerina við því að frændi hans hygðist láta myrða hann ákvað konungurinn að launa hann með því að láta son sinn, krónprinsinn Radama, trúlofast Ramavo. Radama varð konungur Madagaskar árið 1810 og Ramavo varð drottning hans. Hjónin eignuðust engin börn saman, en Ramavo eignaðist soninn Rakoto með elskhuga sínum. Ramavo sagðist hafa eignast hann með eiginmanni sínum en þar sem sonurinn fæddist meira en níu mánuðum eftir dauða hans er þetta ekki tekið trúanlegt.

Þegar Radama 1. lést barnlaus árið 1828 hefði elsti sonur elstu systur hans, Rakatobe, lögum samkvæmt átt að taka við krúnunni. Ramavo hafði hins vegar gert bandalag við trúar- og hernaðarleiðtoga eyríkisins og með þeirra stuðningi lýsti hún sjálfa sig nýja drottningu Madagaskar undir nafninu Ranavalona. Ranavalona var krýnd drottning þann 12. júní 1829.[2]

Sem drottning sór Ranavalona þess eið að viðhalda menningu og trúarsiðum Madagaskar. Hún sneri við ýmsum umbótum sem Radama hafði gert og rifti ýmsum verslunarsamningum sem hann hafði gert við breska og franska sendifulltrúa. Ranavalona byggði upp her fyrir konungsríkið og stuðlaði að þróun iðnaðar í Madagaskar með hjálp fransks skipbrotsmanns að nafni Jean Laborde. Hersveitir Ranavalonu héldu sjálfum sér uppi meðal annars með því að ræna eignum eyjarskeggja sem ekki voru af Merina-þjóðerni.

Á fjórða áratuginum bannaði Ranavalona kristið trúboð á Madagaskar. Kristnir trúboðar voru ýmist reknir frá eyjunni, reknir í felur eða teknir af lífi.

Stjórn Ranavalonu mætti síauknu mótlæti af hálfu Evrópuveldanna. Frakkinn Joseph Lambord lagði eitt sinn á ráðin með Jean Laborde og Rakoto prinsi um að koma Ranavalonu frá völdum. Valdaránstilraun þeirra misheppnaðist og fulltrúar Evrópuveldanna voru í kjölfarið reknir frá eyjunni. Ranavalona réð yfir Madagaskar þar til hún lést árið 1861. Hún hafði haldið nýlenduveldunum frá Madagaskar en eyríkið hafði fyrir vikið orðið nokkuð einangrað. Sonur hennar tók við völdum undir nafninu Radama 2. og hóf að opna landið fyrir erlendum áhrifum.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Ættartré“. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. ágúst 2017. Sótt 26. maí 2019.
  2. William Ellis (1838). Volume 2 of History of Madagascar: Comprising Also the Progress of the Christian Mission Established in 1818. Fisher, Son & Co. bls. 421–422.


Fyrirrennari:
Radama 1.
Drottning Madagaskar
(11. ágúst 182816. ágúst 1861)
Eftirmaður:
Radama 2.