Fara í innihald

Rafveita Siglufjarðar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rafveita Siglufjarðar var stofnuð 18. desember 1918. Hún er fjórða elsta rafveita Íslands af þeim rafveitum sem dreifðu raforku til almenningsnota. Fyrsta aflvél rafveitunnar var 40 hestöfl og var sett upp við Hvanneyrará í Siglufirði. Fljótlega varð þessi aflstöð of lítil miðað við notkun, og var þá sett upp díselrafstöð til að bæta úr þessu nokkrum árum seinna. Rafveita Siglufjarðar sá því frá fyrstu tíð um að framleiða sína eigin raforku, en vegna hraðrar uppbyggingar í bænum óx eftirspurn eftir raforku stöðugt. Í fyrstu var raforkan nær engöngu notuð til ljósa og lýsingar. Á þessum árum sá rafveitan um verkefni eins og línulagnir dreifikerfis og tengingu við hús í bænum.

Skeiðsfossvirkjun áformuð[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1920 varð Frímanni B. Arngrímssyni, frumkvöðli í raforkumálum á Íslandi, ljóst að bestu virkjunarmöguleikarnir fyrir Siglufjörð væru í landi bæjarins Skeið í Stíflu, sem Skeiðsfoss er kenndur við. Bæjarstjórn Siglufjarðar keypti jörðina Skeið árið 1921 með hálfum vatnsréttindum í því skyni að láta gera vatnsaflsvirkjun þar síðar, en það var ekki fyrr en árið 1929 sem verkfræðingar skiluðu inn fyrstu tillögum að áætlaðri Skeiðsfossvirkjun. Virkjun Skeiðsfoss er langstærsta framkvæmd sem Rafveita Siglufjarðar stóð að. Árið 1935 fékk Siglufjarðakaupstaður lagaheimild til að byggja vatnsaflsvirkjunina, en það ár var rafveitan komin að fótum fram með að útvega raforku fyrir kaupstaðinn með þeim takmarkaða vélakosti sem var fyrir hendi. Danskt félag sem hét Skeiðsfoss hf. var stofnað. Þessu félagi var veitt einkaleyfi til sölu og framleiðslu rafmagns í Siglufirði til 20 ára. Kostnaður vegna framkvæmda og lagningu háspennulínu til Siglufjarðar þótti þó of hár, þannig að horfið var frá þessari áætlun. Ný áætlun um nákvæma útfærslu virkjunarinnar var síðan gefin út árið 1938, og Siglufjarðarkaupstaður fékk rafveituna aftur í sínar hendur frá félaginu Skeiðsfossi hf. árið 1940. Árið 1942 var þessum áætlunum enn breytt og var nú gert ráð fyrir tveimur 2350 hestafla vélum og stíflu með 43 metra fallhæð.

Framkvæmdir[breyta | breyta frumkóða]

Þótt ríkisábyrgð fyrir láni vegna Skeiðsfossvirkjunar hafi ekki fengist fyrr en árið 1943 var hafist handa um undirbúning þegar árið 1941 með vegalagningu að virkjunarstaðnum. Árið eftir voru byggðir íbúðarskálar fyrir verkamenn og annað starfslið. Veturinn 1942-1943 var sprengt fyrir vatnsleiðsluskurði að væntanlegu stöðvarhúsi. Stöðvarhúsið var að mestu fullbyggt haustið 1943 ásamt undirstöðu stíflunnar og gerð frárennslisgangna. Virkjunin var svo gangsett þann 29. apríl 1945. Þrátt fyrir það var enn eftir mikið verk við að ljúka Skeiðsfossvirkjun. Eftir var að hækka stíflugarðinn um sex metra, ljúka við frágang bygginga og annarra mannvirkja. Háspennudreifikerfi var sett upp í Siglufirði með tilheyrandi spennum og mannvirkjum. Síðari aflvél virkjunarinnar kom árið 1953, og þá var loks hægt að segja að hún væri fullgerð miðað við áætlun, en raforkuframleiðsla hafði þá þegar farið fram um átta ára skeið. Uppsett afl virkjunarinnar var 3,2 MW.[1] Mest var framleitt 11 gígawattstundir í virkjuninni árið 1962. Háspennulínan frá virkjuninni til Siglufjarðar liggur um Siglufjarðarskarð í 630 metra hæð í stálmöstrum.[2] Árið 1955 voru Fljótin rafvædd og tengd Skeiðsfossvirkjun. Árið 1956 var Ólafsfjörður tengdur við virkjunina með háspennulínu yfir Lágheiði. Orkusvæði Rafveitu Siglufjarðar var þá Siglufjörður, Fljót, Ólafsfjörður og utanverð Sléttuhlíð í Skagafirði. Árið 1978 bjuggu á þessu svæði um 3.500 manns. Árið 1966 var keypt notuð díselrafstöð frá Bretlandi, 1000kW, og sett upp í gamla rafstöðvarhúsinu við Hvanneyrará. Árið 1968 var keypt önnur notuð díselrafstöð, einnig frá Bretlandi, 500 kW. Var rafveitan þá orðin fær um að útvega vara-afl þegar þurfti, en á árum áður hafði verið notast við vara-afl frá vélum Síldarverksmiðja ríkisins.[3]

Viðbótarvirkjun í Stóru-Þverá[breyta | breyta frumkóða]

Magnús Kjartansson iðnaðarráðherra veitti heimild til handa Rafveitu Siglufjarðar um að reisa aðra virkjun í Fljótaá árið 1974. Virkjuninni, sem áætluð var 1.7 MW, var valinn staður til móts við bæinn Stóru-Þverá. Byggð var yfirfallsstífla, stöðvarhús og sett niður 520 metra aðrennslispípa. Þá var grafinn aðrennslisskurður sem er 1000 metra langur og 18 metra hár jöfnunarturn reistur. Öllum framkvæmdum var lokið haustið 1976. Árið 1983 framleiddi stöðin við Stóru-Þverá 7.8 gígawattstundir, og jók það framleiðugetu raforku um 50 prósent miðað við það sem áður var, þegar eldri virkjunin starfaði ein.[2]

Virkjanirnar og dreifikerfið selt RARIK[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1991 seldi Siglufjarðarkaupstaður virkjanirnar við Skeiðsfoss og Stóru Þverá ásamt háspennulínum og dreifikerfi. Kaupandinn var Rafmagnsveitur ríkisins (RARIK). Bent var á að hér væri um nokkurs konar nauðungarsölu að ræða til að minnka skuldir Rafveitu Siglufjarðar og þá um leið Siglufjarðarkaupstaðar, því kaupverðið var greitt með yfirtöku skulda.[4] Sjónarmið RARIK á þessum tíma var m.a. að auka hagræðingu í rekstri virkjana og dreifikerfis, auk þess sem öryggi væri almennt aukið í raforkumálum þegar allt væri á einni hendi, framleiðsla og dreifing raforku á stórum svæðum.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Þróun rafvæðingar í Skagafirði“.
  2. 2,0 2,1 „75 ára afm. Rafveitu Siglufjarðar“.
  3. „Rafveitumál í Siglufirði eftir Sverri Sveinsson rafveitustjóra“.
  4. „Sjálfst. og ósjálfst. í raforkumálum“.
  5. „Stjórnsýsla“.