Fara í innihald

Rökfræðileg ritgerð um heimspeki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rökfræðileg ritgerð um heimspeki (á frummálinu Logisch-Philosophische Abhandlung en best þekkt undir titlinum Tractatus Logico-Philosophicus' eða bara Tractatus) er eina bókin sem austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein gaf út á ævi sinni. Hún var skrifuð meðan Wittgenstein var í leyfi frá austurríska hernum árið 1918 meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð. Bókin kom fyrst út á þýsku árið 1921 sem Logisch-Philosophische Abhandlung og er nú almennt talið eitt af mikilvægustu heimspekiritum 20. aldar. G.E. Moore lagði fyrst til latneska titilinn, sem vísar til Tractatus Theologico-Politicus eftir hollenska heimspekinginn Benedictus Spinoza. Alræmdur ritstíll Wittgensteins var undir áhrifum frá þýska rökfræðingnum og heimspekingnum Gottlob Frege, en Wittgenstein dáðist mjög að verkum hans.[1]

Þessi stutta bók (tæplega áttatíu síður) er í formi stuttra hnitmiðaðra setninga sem er skipað saman í númerað kerfi: 1, 1.1, 1.11, 1.12, o.s.frv., til 7, þannig að 1.1 er athugasemd við 1, 1.11 og 1.12 eru athugasemdir við 1.1, og þannig áfram, til að sýna fram á innbyrðis tengsl þeirra. Markmið bókarinnar er að finna tengslin milli máls og veruleika og skilgreina takmörk heimspekinnar með því að setja fram „…skilyrði röklega fullkomins tungumáls“. (Russell, bls. 8 í inngangi að þýðingu C.K. Ogden) Markmiðið var að ljúka við að smíða heimspekikerfi rökeindahyggjunnar, sem Bertrand Russell hafði hafið vinnu við.

Endir bókarinnar kemur nokkuð á óvart og setur fram þýðingarmiklar afleiðingar fyrir heimspekina. Þar er lagt til að öll umræða um frumspeki liggi utan við mörk málsins.

Rökfræðileg ritgerð um heimspeki var gríðarlega áhrifamikið rit, einkum meðal rökfræðilegra raunhyggjumanna, en einnig margra annarra.

Meginintak kenningarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Í ritinu eru sjö megin staðhæfingar. Þær eru:

  1. Heimurinn er allt sem er.
  2. Það sem er (staðreynd) felst í ósmættanlegum grunnstaðreyndum.
  3. Hugsun er rökleg mynd staðreyndar.
  4. Hugsun er staðhæfing sem hefur skilning.
  5. Staðhæfing er sannverkun grundvallar staðhæfinga.
  6. Almennt form staðhæfingar er almennt form sannverkunar, sem er: .
  7. Það sem ekki er hægt að tala um verðum við að þegja um.

Útgáfur og þýðingar

[breyta | breyta frumkóða]

Frumútgáfa Rökfræðilegrar ritgerðar um heimspeki er:

  • „Logisch-Philosophische Abhandlung“, Wilhelm Ostwald (ritstj.), Annalen der Naturphilosophie 14 (1921)

Tvær enskar þýðingar hafa birst á prenti, en í báðum er inngangur eftir Bertrand Russell:

  1. Þýðing C.K. Odgen (1922).
  2. Þýðing David Pears og Brian McGuinness (1961)
  1. Í Heimspekilegum athugasemdum skrifar Wittgenstein: „Stíll setninga minna er undir óvenju miklum áhrifum frá Frege. Og ef ég kærði mig um gæti ég komið auga á þessi áhrif þar sem enginn myndi verða var við þau við fyrstu sýn“.