Rói Patursson
Rói Reynagarð Patursson (fæddur 21. september 1947) er færeyskur rithöfundur, ljóðskáld og heimspekingur og skólastjóri lýðháskólans í Færeyjum.
Rói, sem er langafabarn færeyska sjálfstæðisbaráttumannsins Jóannesar Paturssonar, fæddist í Þórshöfn og ólst þar upp. Hann fór í siglingar 16 ára að aldri, meðal annars til Austurlanda, flakkaði svo víða um Evrópu og var í París vorið 1968. Hann settist svo aftur á skólabekk, lauk stúdentsprófi og lagði síðan stund á heimspekinám við Kaupmannahafnarháskóla og lauk meistaraprófi 1985. Frá 1988 hefur hann verið skólastjóri lýðháskólans í Þórshöfn, Føroya Fólkaháskúla.
Hann hefur skrifað smásögur og fleira en er þekktastur fyrir ljóð sín og hefur þó aðeins sent frá sér þrjár ljóðabækur. Sú fyrsta kom út 1969, þegar hann var aðeins 22 ára að aldri og var henni mjög vel tekið. Hún var nafnlaus en hefur seinna verið kölluð Yrkingar. Fyrir hana hlaut hann meðal annars Bókmenntaverðlaun Færeyja. Árið 1976 kom ljóðasafnið Á alfaravegi. Árið 1986 hlaut Rói svo Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabókina Líkasum sem út kom árið áður. Honum voru aftur veitt færeysku bókmenntaverðlaunin 1988 sem heiðursverðlaun. Engin bók hefur komið frá honum eftir að hann tók við skólastjórastarfinu.