Fara í innihald

Róbert Rínarfursti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Róbert fursti eftir Antoon van Dyck.

Róbert Rínarfursti, greifi af Pfalz við Rín og hertogi af Bæjaralandi (17. desember 161929. nóvember 1682) var frægur herforingi í her konungssinna í Ensku borgarastyrjöldinni og einn af þeim fyrstu sem nýttu sér messótintu við gerð prentmynda.

Hann var þriðji sonur Friðriks 5. kjörfursta af Pfalz og Elísabetar Stúart, dóttur Jakobs 1. Englandskonungs, og fæddist í Prag þar sem faðir hans var konungur einn vetur áður en Ferdinand 2. keisari lagði landið undir sig með hervaldi. Fjölskyldan hraktist við það í útlegð til Hollands. Elsti bróðir hans, Friðrik Hinrik, drukknaði 1629 og faðir hans lést þremur árum síðar. 1633 hóf hann feril sem hermaður í her Friðriks Hinriks Óraníufursta og tók þátt í Áttatíu ára stríðinu gegn Spáni.

Hann tók líka þátt í Þrjátíu ára stríðinu í Þýskalandi en var tekinn til fanga og haldið í fangelsi í Linz í Austurríki. 1641 var honum sleppt með því skilyrði að hann tæki ekki upp vopn gegn keisaranum framar.

1642 skipaði móðurbróðir hans, Karl 1. Englandskonungur, hann foringja yfir riddaraliði konungssinna í Ensku borgarastyrjöldinni. Hann þótti djarfur og snjall foringi og tryggði konungssinnum marga sigra, þótt mistök hans hefðu líklega kostað þá sigurinn í orrustunni við Edgehill. Í nóvember 1644 var hann gerður að hershöfðingja. Í orrustunni við Naseby gegn hinum nýskipaða New Model Army kostuðu ráðleggingar hans konungssinna stóran hluta hersins og staða hans versnaði til muna. Eftir orrustuna taldi hann stríðið tapað og hvatti konung til að semja um frið við þingið sem Karl hafnaði. Róbert gaf þá þinghernum eftir Bristol í september 1645 og gegndi engum ábyrgðarstöðum í her konungssinna eftir það. 1646 dæmdi þingið hann útlægan.

Róbert hélt til Frakklands þar sem hann stjórnaði flokki útlægra Englendinga í lokakafla Þrjátíu ára stríðsins. Skömmu síðar sættist hann við Karl og var skipaður foringi yfir lítilli flotadeild konungssinna. Hann hélt í langa og illa heppnaða herför sem lyktaði með ósigri í sjóorrustu gegn Robert Blake, flotaforingja þingsins. Róbert flúði þá til Vestur-Indía þar sem hann lifði á sjóránum.

Á tíma Stúart-endurreisnarinnar sneri hann aftur til Englands þar sem Karl 2. skipaði hann í leyndarráð sitt og fékk honum lífeyri. Hann varð aftur flotaforingi og stýrði enska flotanum í sjóorrustum við Hollendinga í Öðru stríði Englands og Hollands 1665 – 1667 og Þriðja stríði Englands og Hollands 1672 – 1674 þar sem hann beið ósigra í orrustunni við Schooneveld og orrustunni við Texel.

Á þessum árum bjó hann með leikkonunni Margaret Hughes og átti með henni dótturina Rupertu. Hann lést árið 1682 og var jarðsettur í Westminster Abbey.