Platonsk ást

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Platonsk ást er skírlíf ást, sem skýrir sig með því að elskendurnir tjá ást sína ekki líkamlega eða kynferðislega. Hugmyndina um platonska ást má rekja til rita forngríska heimspekingsins Platons.

Platonsk ást í ritum Platons[breyta | breyta frumkóða]

Kenningar Platons um ástina hafa orðið gríðarlega áhrifamiklar og er hugtakið platonsk ást gjarnan notuð um andleg ástarsambönd tveggja einstaklinga. Hugmyndir Platons sjálfs voru þó örlítið frábrugðnar nútímaskilningi hugtaksins. Platon fjallar um ástina einkum í samræðunum Samdrykkjunni og Fædrosi.[1] Í Samdrykkjunni er ástin eða öllu heldur guðinn Eros megin umræðuefnið en hjá Forngrikkjum fól hugtakið ást eða eros einkum í sér losta og þrá. Þátttakendur í samdrykkjunni skiptast á að lofa guðinn Eros en þegar röðin er komin að Sókratesi endursegir hann það sem hann kveðst hafa lært af Díótímu, viturri konu frá Mantíneu. Í endursögninni kemur fram að viðfang ástarinnar er hið góða, hið fagra og ódauðleikinn. Fyrst lærir maður að sjá fegurðina í einstökum hlutum eða í einstaklingum, svo í mörgum hlutum. Þá lærir maður að sjá fegurðina í fögrum lifnaðarháttum og síðan fegurðina í vísindum. Að lokum lærir maður að elska fegurðina sjálfa sem er öllum fögrum hlutum sameiginleg. Hún er ekki skynjanleg heldur skiljanleg, enda er hún frummynd.[2]

Í Fædrosi er ástin sögð vera guðdómleg vitfirring sem kemur yfir mann þegar hann sér fagran hlut og fegurðin sjálf rifjast upp fyrir honum en sálin man eftir fyrri kynnum sínum við fegurðina frá því fyrir jarðlífið.[3]

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var afstaða Sókratesar til ástarinnar?“ Vísindavefurinn 6.8.2008. (Skoðað 20.9.2008). Sjá einnig C.D.C. Reeve, „Plato on Friendship and Eros“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 20.9.2008).
  2. Sjá C.D.C. Reeve, „Plato on Friendship and Eros: 4. Love and the Ascent to the Beautiful“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 20.9.2008).
  3. Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var afstaða Sókratesar til ástarinnar?“ Vísindavefurinn 6.8.2008. (Skoðað 20.9.2008).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hver var afstaða Sókratesar til ástarinnar?“. Vísindavefurinn.
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Plato on Friendship and Eros