Fara í innihald

Plógur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Plægja)
Málverk af plóg í miðaldahandriti frá 1410
Plæging í Bandaríkjunum

Plógur er landbúnaðarverkfæri sem notað er til jarðvinnslu og umturnar efstu jarðvegslögunum. Plæging er framkvæmd við sáningu eða þegar brjóta á nýtt land til nytja. Plógar eru einnig notaðir til að plægja niður jarðstrengi, og sæstrengi, þegar leggja á lagnir í jörðu.

Bóndi plægir með tveimur hestum

Plógurinn er þróun skóflu og haka sem notuð voru við jarðvinnslu; fyrst á bökkum Nílar og í Mesópótamíu. Fyrstu plógana drógu menn en síðar nýttu þeir sér krafta nautgripa og stýrðu þá ferð þeirra. Við þetta jukust afköstin.

Fyrstu plógarnir voru einfaldir; höfðu ramma með áfastri spýtu sem dróst í gegnum efstu jarðvegslögin. Talið er að slíkir plógar hafi fyrst verið notaðir 600 árum fyrir Krist. Síðar þróuðust plógarnir og breyttust svo þeir fóru að rista dýpra og snúa jarðveginum við. Þannig lenda illgresi og aðrar óæskilegar jurtir undir og drepast þannig að nytjajurtirnar fá að vaxa í friði.

Fram á 18. öld urðu litlar breytingar á plógnum en árið 1730 hóf Joseph Foljambe í Rotherham á Englandi að fjöldaframleiða plóga; Rotherham-plóginn. Hann varði moldverpið með járni[1] og var plógurinn allur léttari en eldri gerðir. Þannig varð hann mjög vinsæll.

Uppúr 1830 hannaði bandaríski járnsmiðurinn John Deere steypumót að plógi og þannig gat hann fjöldaframleitt plóga fyrir bændur. Fyrstu stálplógarnir voru til þess að ganga eftir en seinna komu einnig plógar með sæti fyrir plógmanninn. Enn seinna komu plógar sem höfðu fleiri en einn skera.

Harry Ferguson hannaði dráttarvél sem nýtti sér þrítengisfestingar fyrir plóginn og markaðssetti við lok seinni heimsstyrjaldar. Dráttarvélin, eða járnhesturinn, leysti hesta og nautgripi af sem dráttardýr og afköstin jukust.

Margar tegundir plóga eru í notkun; með ólíkum fjölda skera og útfærslum. Algengustu tegundirnar eru „venjulegur“ plógur sem plægir alltaf í sömu átt (leggur strenginn alltaf til hægri eða vinstri) og vendirplógur sem hægt er að snúa við og leggja strenginn þannig í „hina áttina“. Er þetta gert með vökvaafli.

Gufuaflsplógar

[breyta | breyta frumkóða]
10-skera plógur dreginn af gufudráttarvél, 1910 í Alberta, Kanada, með diskaherfi að aftan.

Þegar landbúnaðarbyltingi greip heiminn fóru menn að nýta sér gufuaflið við plægingar og landbrot. Þannig drógu gufuvélar allt að 14-skera plóga í Bandaríkjunum. Með þessu tókst að brjóta mörg hundruð hektara á dag, ef nýttar voru fleiri gufuvélar. Síðar þegar brunahreyflar komu fram á sjónarsviðið voru þær vélar mun aflminni og gátu því ekki dregið sömu plógana.

Plógar með öryggi

[breyta | breyta frumkóða]

Í landbúnaðarbyltingunni var farið að brjóta land sem áður hafði verið skógi vaxið og þurfti þá að búa til plóga sem hægt væri að kippa upp úr jarðveginum þegar þeir steyttu á grjóti eða rótum. Þannig komu fram plógar með öryggi þar sem skerinn lyftist upp þegar átakið varð of mikið (þegar skeratáin rakst í eitthvað). Átaksmælirinn var í yfirtengi dráttarvélarinnar (t.d. Massey Ferguson 185) eða lyftuörmum hennar (nýlegar, stærri vélar).

Vendiplógar

[breyta | breyta frumkóða]
Unnið með vendiplóg

Vendiplógur er plógur sem hefur tvöfalt sett af skerum þar sem helmingur snýr upp hverju sinni. Vendiplógurinn er tengdur við þrítengi dráttarvélarinnar og snúið við með vökvaafli. Þannig er hægt að keyra fram og aftur um akurinn eða stykkið í stað þess að plægja alltaf sömu átt. Plæging með vendiplóg kemur einnig í veg fyrir að myndist hryggur í miðju stykki.

Kílplógar

[breyta | breyta frumkóða]

Kílplógar eru notaðir til að lofta um jarðveg (búa til holurými), drena (búa til kílræsi) eða plægja niður jarðstrengi og rör. Við jarðvinnslu verður að hafa í hug að blanda ekki saman lífvana, súrum jarðvegi við yfirborðið svo dragi úr sprettu og frjósemi þess jarðvegs sem plöntum er ætlað að lifa í.

Jarðvegseyðing

[breyta | breyta frumkóða]

Ein af afleiðingum plægingar er jarðvegseyðing þar sem roföfl taka með sér jarðefni burt frá akrinum. Þetta gerist einna helst í bröttu landi með vatnsrofi eða þar sem mikill vindur er.

Hlutar plógsins

[breyta | breyta frumkóða]
Hlutar plógs. 1: Rammaverk, 2: Stafn, 3: Stillihjól, 4: Ristill, 5: Skeratá, 6: Skeri og 7: Moldverpi

Helstu hlutar plógs eru:

  • Stafn og stafnstag
  • Fjaðrafesting og útsláttarfjöður með fjaðurarmi
  • Skeri með skeratá og moldverpi
  • Hjólhnífur
  • Ristill
  • Landhjól

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „A Brief History of The Plough“.