Paris-sous-Seine

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Paris-sous-Seine (íslenska: París í kafi) er 47. Svals og Vals-bókin og sú fyrsta eftir þá Morvan og Munuera. Hún kom út á frummálinu árið 2004 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Svalur og Valur heimsækja Sveppagreifann sem kynnir þeim nýjustu uppfinningu sína: búnað sem getur bæði fryst vatn og látið það gufa upp og falla sem úrkomu annars staðar. Tilgangurinn er að uppræta þurrka og græða upp eyðimerkur í fátækum löndum. Áður en greifanum tekst að sýna hvernig búnaðurinn virkar, koma risavaxin vélmenni aðvífandi og nema hann og tækin á brott.

Skömmu síðar skella mikil og óútskýrð flóð á Parísarborg. Borgin er hálf í kafi og flestir íbúarnir flýja. Svalur og Valur leggja saman tvo og tvo og halda á svæðið til að frelsa Sveppagreifann. Í ljós kemur að honum er haldið föngnum af snjallri vísindakonu, Frú Flanner.

Frú Flanner reynist vera æskuást greifans frá háskólaárum þeirra. Ástæða þess að hún sökkti borginni var öðrum þræði að sýna mátt sinn en jafnframt notaði hún tækifærið og rændi stórum hluta listaverkanna í Louvre, fyrir einkasafn sitt. Sveppagreifinn bregst illa við þessu framferði hinnar gömlu vinkonu sinnar, en þó kviknar í gömlum glæðum þeirra á milli, einkum eftir að greifinn verður þess áskynja að Frú Flanner er fársjúk.

Meðan þessu fer fram lenda Svalur og Valur í æsilegum eltingaleik við vélmenni vísindakonunnar, þar sem leikurinn berst um mörg af kunnustu kennileitum Parísarborgar. Að lokum hafa þeir upp á Frú Flanner og eftir orðaskipti milli þeirra gefur Svalur henni kinnhest, en verður þegar miður sín yfir að hafa slegið konu. Sveppagreifinn gengur á milli og segist hafa fengið Frú Flanner til að iðrast, hætta við áform sín og þurrka París upp aftur. Í bókarlok ræða Svalur, Valur og Sveppagreifinn saman á setri hans og velta því fyrir sér hvort Frú Flanner sé í raun hætt á glæpabrautinni?

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Sex ár liðu milli þessarar Svals og Vals-bókar og þeirrar síðustu. Er það langlengsta útgáfuhlé í sögu sagnaflokksins.
  • Blaðakonunni Bitlu, keppinauti Svals, bregður fyrir í bókinni. Hún hafði ekki komið við sögu í bókaflokknum frá því í bók 34 Ævintýri í Ástralíu.