Paradís (hljómsveit)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Paradís var Íslensk hljómsveit sem stofnuð var á rústum hljómsveitarinnar Pelican árið 1975. Af þeim Pétri W. Kristjánssyni, Björgvini Gíslasyni, Ásgeiri Óskarssyni, Gunnari Hermannssyni, Nikulási Róbertssyni og Pétri Hjaltested. Þessi hljómsveit varð strax geysivinsæl meðal táninga. Þegar stóra plata Paradísar kom út 1976 skrifaði blaðamaður Dagblaðsins, Ásgeir Tómasson, þetta um plötuna.

Hljómsveitin Paradís hefur náð slíkum vinsældum hjá íslenskum táningum, að annað eins hefur ekki gerst síðustu árin, síðan Hljómar og síðar Ævintýri voru og hétu, Það er því svo sannarlega mikill fengur fyrir þessa táninga að fá þessa fyrstu LP plötu hljómsveitarinnar í hendur. Hljómsveitin hefur líka valið lög á plötuna fyrir þann markað, sem hún hefur notið hvað mestra vinsælda á.

Það er fyrst og fremst góður hljóðfæraleikur sem gerir þessa fyrstu LP plölu Paradísar að því sem hún er. Lögin eru flest venjulegir línurokkarar. Þó eru tvær undantekningar, önnur er rólegt og hugljúft lag eftir Nikulás Róbertsson, sem nefnist Someday. Hin undantekningin er lag Björgvins Gíslasonar Life Is A Liar. Það lag minnir meira á efnið, sem Pelican sáluga setti á plötur, og jafnvel á köflum á gömlu Náttúruplötuna, sem nú er því miður flestum gleymd.

Hin átta lögin á plötunni sverja sig í ætt við þá tónlist, sem Paradís leikur á dansleikjum. Hljómsveitin hefur þau velflest á dansteikjaprógrammi sínu, Það er reyndar rangt að setja þau öll undir sama hatt, því þau grípa fólk misjafnlega vel. Aðal stuðlögin eru Tarzan, Rabbits og Slip Me Five. Paradís hefur flutt öll þessi lög á hljómleikum og fengið góðar og verðskuldaðar viðtökur fyrir flutning sinn á þeim.

Textar á Paradísarplötunni eru flestir á einn veg. Þeir eru fremur innihaldslitlir, sem er út af fyrir sig enginn galli, þar sem hljómsveitin leikur eingöngu á dansleikjum og hljómleikum og hefur engan boðskap sem hún þarf að koma á framfæri.

Textahöfundar eru fjórir. Fyrst skal telja þá blaðamennina Gunnar Salvarsson og Gísla Svein Loftsson. Þeir sleppa þokkalega frá sínu hlutverki, — Gunnar með einfalda texta, en Gísli aftur á móti með heilar ritgerðir. Ágúst Guðmundsson, öðru nafni Eastan McNeal, á tvo texta, sem minna fremur á orðaleik en lyrikk. Ágúst samdi á sínum tíma marga texta fyrir Pelican, og þeir sem hann gerir fyrir Paradís eru ósköp áþekkir hinum fyrri. — Þá er ótalinn höfundur textans við Someday. Sá er skráður H. Antonsson og virðist hafa hitt á viðeigandi efnivið við lagið.

Umslag Paradísarplötunnar er þokkalegt. Á forsíðu er mynd af Adam og Evu í Paradís, sú er gerð af Þorsteini Eggertssyni. Einhvern veginn finnst mér þessi mynd ekki hæfa rokkplötu þó hún sé vel gerð. Ljósmynd Björgvins Pálssonar á baksíðu er góð, eins og við var að búast frá honum. Samt tel ég, að Paradís hefði átt að notfæra sér hæfileika Björgvins til að taka live myndir af hljómsveitinni og setja eina slíka á umslagið.

Í stuttu máli: Paradísar platan er ágætlega áheyrileg. Hún er eingöngu miðuð við tónlislarþarfir þess aldursflokks sem Paradís miðar flutning sinn við. Ef litið er á dægurtónlistina í heild, þá er platan ef til vill dálítið gamaldags, Það er funky- og diskótektónlistin, sem er í tísku þessa dagana, en guð forði Paradís frá því að fara að flytja slíka tónlist.

 

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. plötudómur í Dagblaðinu 1. október 1976. bls,14.