Pappírsskutla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Pappírsskutlur (eða skutlur) eru leikfangaflugvélar, búnar til úr pappír. Algengasta gerð pappírsskutlugerðar er líklega útgáfa á hinu japanska origami, það er pappírsbrot. Vinsældum þeirra eru einkum að þakka því hversu einfalt er að læra að búa þær til, þær einföldustu geta verið „tilbúnar“ eftir aðeins sex brot eða svo.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Notkun pappírs við leikfangagerð er talin vera allt að 2000 ára gömul og upprunin í Kína, þar sem flugdrekaflug var vinsæl afþreying. Þrátt fyrir að þeir hafi verið forrennarar nútíma skutlunnar, er ekki hægt að vita fyrir víst hvar sú á uppruna sinn; hönnun þeirra hefur verið í sífelldri breytingu út af hlutum eins og hraða, flughæð og útliti.

Elsta þekkta dæmi um að pappírsskutla hafi verið búin er sagt vera frá 1909 en almennara er að tala um að það hafi verið árið 1930, og þá hafi það verið Jack Northrop (annar stofnenda Lockheed flugvélafyrirtækisins) sem hafi búið hana til. Northrop notaði skutlur til að fá hugmyndir fyrir alvöru flugvélar.

Gerðir[breyta | breyta frumkóða]

Óteljandi gerðir skutla eru til. Hér er einungis tveimur slíkum lýst. Rétthyrnt blað, til dæmis af stærð A4, er notað.

Leiðbeiningar[breyta | breyta frumkóða]

Mynd sem lýsir hvernig skal búa til skutlu.
  1. Blaðið er brotið eftir miðju, á lengri kantinn, til að fá miðlínu til viðmiðunar. Þetta er hægt að gera með því að brjóta vinstri helming blaðsins yfir þann hægri, svo sá hægri hyljist algjörlega af þeim vinstri, en án þess að kantur þess vinstri fari út fyrir kant þess hægri.
  2. Rétt er aftur úr blaðinu eftir þetta, þá er komin lína. Að þeirri línu er dregið efra horn vinstri hliðar blaðsins, þannig að efri kanturinn liggi upp við miðlínuna. Það sama er svo gert með hægri hlutann.
  3. Þá er blaðið brotið aftur eftir miðlínunni, en nú í öfuga átt miðað við það sem áður var, svo að hornin sem brotin voru í skrefi 2 séu inni í skutlunni. Einnig er hægt að brjóta þau horn til baka, og brjóta eftir miðlínunni í sömu átt og áður var gert.
  4. Síðast eru vængirnir búnir til. Það er gert með því að taka styttri hliðina á samanbrotinni skutlunni og brjóta niður, ýmist hálfa eða alla leið að hinni hliðinni.

Þessa hönnun er síðan hægt að nota sem grunn við það að búa til ýmsar aðrar skutlur.

DC-03[breyta | breyta frumkóða]

Margir hafa haldið því fram að hafa búið til „heimsins bestu skutlu“. Ein slík er DC-03 [1] Geymt 5 apríl 2005 í Wayback Machine. Hún hefur stóra vængi til svifs og, sem er mjög sjaldgæft í pappírsskutlum, stél. Það eru hins vegar engin heimssamtök um skutlugerð svo enginn getur staðfest eða hrakið þá fullyrðingu.