Fara í innihald

Pókahontas

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Pókahontas klæddri að hætti Evrópubúa árið 1616.

Pókahontas (u.þ.b. 1596 – mars 1617), fædd undir nafninu Matoaka[1] og síðar þekkt undir nöfnunum Amonute og Rebecca Rolfe, var amerísk frumbyggjakona sem varð fræg fyrir samskipti sín við evrópska landnema í bresku nýlendunni Jamestown í Virginíu og fyrir stuðla að friði milli þeirra og frumbyggjanna. Pókahontas var dóttir Póvatans, æðsta höfðingja samnefnds þjóðflokkasambands sem samanstóð af 28 ættbálkum í Tidewater-héraði Virginíu. Fræg saga fer af því að hún hafi bjargað lífi enska landnemans Johns Smith árið 1607 með því að henda sér yfir hann þegar faðir hennar reiddi kylfu sína til höggs og ætlaði að taka hann af lífi. Margir sagnfræðingar efast um að þessir atburðir hafi nokkurn tímann gerst í raun.

Árið 1613 handsömuðu Englendingar Pókahontas og héldu henni gegn lausnargjaldi. Á meðan hún dvaldi með Englendingunum snerist Pókahontas til kristni og tók upp nafnið Rebecca. Þegar henni bauðst að snúa heim til þjóðar sinnar ákvað hún að vera heldur áfram með Englendingunum. Í apríl árið 1614, þegar hún var 17 ára, giftist Pókahontas tóbaksræktarmanninum John Rolfe. Hjónunum fæddist sonurinn Thomas Rolfe í janúar árið 1615.

Árið 1616 héldu Rolfe-hjónin til Lundúna. Pókahontas var höfð til sýnis í breska samkvæmislífinu og bent var á hana sem dæmi um „villimann“ sem hefði verið siðmenntaður. Hún varð mjög fræg í Englandi, fékk að klæðast fínum fötum og var boðið til veislu í höll Jakobs 1. Englandskonungs.[2] Árið 1617 hugðust Rolfe-hjónin snúa aftur til Virginíu en Pókahontas lést af ókunnum sjúkdómi í bænum Gravesend, aðeins 20 eða 21 árs. Hún var grafin í kirkju Heilags Georgs þar í bænum en ekki er vitað hvar gröf hennar er staðsett í dag þar sem miklar breytingar hafa verið gerðar á kirkjunni síðan þá.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Amerískur kvenskörungur á 17. öld“. Alþýðublaðið. 8. júní 1947. Sótt 4. desember 2018.
  2. Jón R. Hjálmarsson (27. ágúst 1967). „Upphaf enskrar byggðar í Ameríku“. Tíminn. Sótt 4. desember 2018.