Fara í innihald

Trönuber

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Oxycoccus macrocarpus)
Trönuber, American Cranberry
Vaccinium macrocarpon

Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Lyngbálkur (Ericales)
Ætt: Ericaceae
Ættkvísl: Vaccinium
Tegund:
V. macrocarpon

Tvínefni
Vaccinium macrocarpon
Samheiti
  • Oxycoccus macrocarpus

Trönuber (fræðiheiti: Vaccinium macrocarpon[1]) tilheyra lyngættinni (Ericaceae).[2] Latneskt heiti tegundarinnar er Vaccinium macrocarpon.

Vaccinium macrocarpon er langlíf, fjölær skriðjurt. Runninn hefur trékenndan stöngul og ber lítil, sígræn, egglaga laufblöð, ljósbleik blóm og rauð ber. Berjarunninn getur orðið allt að 2 metra í þvermál og 5-20 cm hár. [2] [3]

Trönuberjarunnar vaxa aðallega í mýrlendi í norðaustanverðum Bandaríkjum og Kanada. Runnin þrífst best í sendnum, súrum jarðvegi með aðgengi að fersku vatni og möguleika á hvíld eða dvala á meðan hann er að undirbúa sig undir vaxtartímabil. [2] [3] [4]

Indíánar í Norður-Ameríku eru sagðir hafa notað trönuber til matar, helst hefur þeim verið blandað við þurrkað kjöt og fitu til að búa til pemmican.[2] Berin voru líka borðuð hrá eða elduð og þurrkuð til geymslu.[5] Þeir notuðu trönuber einnig sem lækningajurt og til að lita mat og tau. [6] [7] [8]

Evrópskir innflytjendur notuðu berin vegna næringarinnihalds þeirra, aðallega sem c-vítamíngjafa fyrir sjómenn og yfir veturinn, til að koma í veg fyrir skyrbjúg. Í Ameríku tengjast trönuber þakkargjörðarhátíðinni þar sem trönuberjasósa er borin fram með kalkúnakjöti. [3] [6]

Elstu heimildir um ræktun trönuberja er frá því snemma á 19. öldinni í Cape Cod í Massachusetts.[6] Ræktun þeirra breiddist svo út til vestur- og norðvesturhluta Bandaríkjanna. Í dag eru stærstu ræktunarsvæðin í Norður-Ameríku (Wisconsin, Massachusetts, New Jersey, Washington og Oregon) þar sem er ræktað rúmlega 90% af heimsframleiðslu.[2][3][6] Önnur ræktunarsvæði eru meðal annars í norður ríkjum Bandaríkjanna, Quebec, Kanada, Chile, Argentínu, Nýja-Sjálandi, Suður-Afríku, Frakklandi, Hollandi, Spáni og Póllandi.[7] Um það bil 95% af trönuberjum sem eru framleidd í Norður-Ameríku eru notuð í safa, hlaup, sósur og þurrkuð ber. Hin 5% eru seld fersk og notuð í bakstur. Fersk trönuber hafa súran og beiskan keim og eru sjaldan borðuð eintóm.[6]

Indíánar notuðu trönuber sem lækningajurt við hita, maga-, blóð-, þvagfæra-, lifra- og nýrnakvillum og í bakstur til að meðhöndla sár og sýkingar.[6][7][8] Berin hafa einnig verið notuð við ýmsum sjúkdómum og kvillum þar á meðal krabbameinum, skyrbjúg, sykursýki, síþreytu, til að draga úr æsingi, við minniháttar óþægindum í hálsi, blóðhreinsandi, við sýkingum, fyrir lifrina, við astma, fyrir gallblöðruna, vægt örvandi, við blöðrubólgu og til að minnka þvaglykt. Nú á dögum eru þau aðallega notuð til að fyrirbyggja þvagfærasýkingar.[5][9]

Markaðssetning

[breyta | breyta frumkóða]

Berin eru seld fersk eða þurrkuð til matargerðar, einnig fást trönuberjahlaup og –sósur. Trönuberjaafurðir eru einnig seldar sem fæðubótarefni á duftformi, í töflu- eða hylkjaformi og trönuberjasafi fæst með og án viðbætts sykurs.[6]

Helstu innihaldsefni trönuberja eru:

Lífrænar sýrur: sítrónusýra, malic, quinic og bensósýra.
Sykrur: frúktósi og óligósakkaríð
Fenól: anthocýanín og proanthocýanídín[10]

Þau innihalda einnig trefjar, natríum, kalíum, selen og A-, C- og E- vítamín í litlu magni.[7][8]

Fyrirbyggjandi við þvagfærasýkingum

[breyta | breyta frumkóða]

in vitro rannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Á þriðja áratug síðustu aldar var lagt til að bakteríuhamlandi áhrif trönuberja væru vegna áhrifa þeirra á sýrustig þvags. Með ummyndun bencoic sýru í hippuric sýru lækkar sýrustig þvagsins en það er ólíklegt að magn benzoic sýru í berjunum sé nægilegt til að hafa bakteríuhemjandi verkun í þvagi.[8] Viðloðun skaðlegra baktería við þekjufrumur í þvagrásinni er fyrsta skrefið í þróun þvagfærasýkinga og hafa nýlegar rannsóknir beinst að eiginleikum trönuberja til að hindra þessa viðloðun.[7] Árið 1984 birti Sobota niðurstöður fyrstu rannsóknarinnar sem sýndu fram á að trönuberjasafi hindraði viðloðun baktería. 77 stofnar E. coli voru einangraðir úr sjúklingum með þvagfærasýkingu og dró trönuberjasafi úr viðloðun bakteríanna um 75% í rúmlega 60% af stofnunum.[11] Rannsóknir sem gerðar hafa verið í kjölfarið styðja þessar niðurstöður og talið er að frúktósi og proanthocyanidin séu virku efnin í tröunberjum sem hafa þessi áhrif.[12][13] Verkunarmátinn er ekki að fullu þekktur en það fæst meiri hömlun á viðloðun baktería með trönuberjasafa heldur en proanthocyanidin hluta hanns og því er talið að um samverkandi áhrif fleiri efna sé að ræða.[4][14]

Klínískar rannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Í Cochrane samanburðarrannsókn voru teknar saman sex rannsóknir sem báru saman árangur trönuberjasafa við lyfleysu eða vatn og tvær rannsóknir sem báru saman trönuberjatöflur eða hylki við lyfleysu. Tvær þessara rannsókna voru aðferðafræðilega góðar. Niðurstöður þeirra sýndu tölfræðilega marktækt færri þvagfærasýkingar eftir 12 mánaða notkun trönuberjasafa miðað við lyfleysu.[10]

Niðurstöður tvíblindrar, lyfleysustírðrar slembirannsóknar, þar sem þátttakendur voru 150 konur sem höfðu áður fengið þvagfærasýkingu, sýndu 12-14% minni líkur á þvagfærasýkingum hjá þeim sem fengu trönuberjaafurðir. Konunum var skipt niður í 3 hópa. Einn hópurinn fékk lyfleysu- safa og töflur, annar trönuberjasafa og lyfleysutöflur og þriðji hópurinn fékk trönuberjasafa og trönuberjatöflur. Eftir eitt ár höfðu 32% kvenna úr lyfleysuhópnum fengið þvagfærasýkingu að minnsta kosti 1 sinni, 20% úr safahópnum en 18% þeirra sem fengu trönuberja- safa og töflur.[15]

Sambærilegar niðurstöður hafa fengist úr svipuðum rannsóknum.[16]

Og benda flestar niðurstöður rannsókna sem kanna fyrirbyggjandi áhrif trönuberjaafurða til þess að trönuber geti minnkað líkurnar á þvagfærasýkingum.[8] Þó má gagnrýna þessar rannsóknir þar sem þær hafa ekki verið nægilega umfangsmiklar og misstórir skammtar mismunandi trönuberjaafurða hafa verið notaðir. Einnig virðast fyrirbyggjandi áhrif trönuberja vera meiri hjá konum sem fá endurteknar þvagfærasýkingar en öðrum hópum til dæmis eldra fólki, börnum og fólki með aðra þvagfærasjúkdóma.[5]

Önnur verkun

[breyta | breyta frumkóða]

Notkun trönuberja til að meðhöndla þvagfærasýkingu er ekki hægt að styðja með rannsóknum.[8]

Virkni ýmissa efna úr trönuberjum hafa verið rannsökuð in vitro og í dýratilraunum með tilliti til annarra sjúkdóma til dæmis proanthocyanidin, quercetin and ursolic acid við krabbameinum, pólýfenól við hjarta- og æðasjúkdómum, trönuber við sykursýki týpu 2 og H. pylori sýkingum.[7][8][9] Niðurstöður þessara rannsókna er þó ekki hægt að yfirfæra á menn þó að þær gefi vísbendingar um að trönuber innihaldi lífvirk efni.[7][8][9]

Skammtastærð

[breyta | breyta frumkóða]

Skammtastærðir í klínískum rannsóknum hafa verið allt frá 120 til 4000 ml á dag af trönuberja safa.[8] Algengir skammtar til að fyrirbyggja þvagfærasýkingu hafa verið allt frá 30-480 mL af safa á dag og hylki hafa verið notuð í skömmtum frá 400-800 mg tvisvar á dag.[9] Trönuberjainnihald og gæði er misjafnt milli framleiðanda og því er erfitt að segja til um hvaða skammtastærð er hæfileg en í bæklingi frá lyflækningasviði Landspítalans er mælt með 250-300 mL af safa á dag til að fyrirbyggja þvagfærasýkingu.[17]

Aukaverkanir

[breyta | breyta frumkóða]

Fáar aukaverkanir hafa komið í ljós en trönuberja safi getur valdið niðurgangi og öðrum meltingartruflunum sé hans neitt í miklu magni (meira en 3-4 lítrar á dag).[8]

Milliverkanir

[breyta | breyta frumkóða]

Komið hafa upp nokkur tilfelli þar sem trönuber eru talin hafa milliverkað við warfarin sem er markaðssett á Íslandi undir sérlyfjaheitinu Kóvar®. Ekki er vitað með hvaða hætti þessi milliverkun á sér stað.[8]

Frábendingar

[breyta | breyta frumkóða]

Það hefur ekki verið sýnt fram á nein skaðleg áhrif af notkun trönuberja. Það er talið öruggt fyrir börn og konur sem eru barnshafandi eða með barn á brjósti að neita trönuberja í venjulegum skammtastærðum sem finnast í mat.[8] Þó geta sumir haft ofnæmi fyrir einhverju innihaldsefnanna. Þau innihalda töluvert magn af salisýlsýru, eins og mörg önnur ber og ávextir, og gætu valdið ofnæmissvari hjá fólki með asperínofnæmi eða astma ef þau eru tekin inn í mjög stórum skömmtum.[9] Þau innihalda einnig oxalat sem gæti aukið líkurnar á nýrnasteinum. Fólk sem hefur fengið nýrnasteina ætti því að forðast að taka inn trönuber í stórum skömmtum.[8][9]

  1. Roskov Y., Kunze T., Orrell T., Abucay L., Paglinawan L., Culham A., Bailly N., Kirk P., Bourgoin T., Baillargeon G., Decock W., De Wever A., Didžiulis V. (ed) (2019). „Species 2000 & ITIS Catalogue of Life: 2019 Annual Checklist“. Species 2000: Naturalis, Leiden, the Netherlands. ISSN 2405-884X. TaxonID: 53562579. Sótt 19. september 2023.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Cranberry: Botany & Horticulture, sótt 11. október 2014.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Vaccinium spp. Cranberry, sótt 11. október 2014.
  4. 4,0 4,1 Herbal Medicine: Biomolecular and Clinical Aspects. 2nd edition. Sótt 11. október 2014.
  5. 5,0 5,1 5,2 Vaccinium (Ericaceae): Ethnobotany and pharmacological potentials[óvirkur tengill], sótt 11 október 2014
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 6,5 6,6 Vaccinium, sótt 11. október 2014.
  7. 7,0 7,1 7,2 7,3 7,4 7,5 7,6 Cranberry Juice and Urinary Tract Infection, sótt 11. október 2014.
  8. 8,00 8,01 8,02 8,03 8,04 8,05 8,06 8,07 8,08 8,09 8,10 8,11 8,12 Woltes Kluwer Health. (Október 2008). Cranberry. Í The review of Natural Products.
  9. 9,0 9,1 9,2 9,3 9,4 9,5 Natural Medicines Comprehensive Database. (e.d.). Cranberry. Sótt 9. september 2014.
  10. 10,0 10,1 Barne, J., Anderson, L.A. og Phillipson, J.D. (2007). Herbal Medicines Third Edition. Pharmaceutical Press.
  11. Inhibition of bacterial adherence by cranberry juice: potential use for the treatment of urinary tract infections. Sótt 11. október 2014.
  12. Zafriri D, Ofek I, Adar R, Pocino M, Sharon N. Inhibitory activity of cranberry juice on adherence of type I and type P fimbriated Escherichia coli to eucaryotic cells. Antimicrob Agents Chemother 1989;33:92-8.[óvirkur tengill] Sótt 11. október 2014.
  13. Ofek I, Goldhar J, Zafriri D, Lis H, Adar R, Sharon N. Anti-Escherichia coli adhesin activity of cranberry and blueberry juices. N Engl J Med 1991;324:1599. Sótt 11. október 2014.
  14. Monograph of Vaccinium macrocarpon sótt 11. október 2014.
  15. Stothers L. A randomized trial to evaluate effectiveness and cost effectiveness of naturopathic cranberry products against urinary tract infection in women. Can J Urol 2002;9:1558-62. Geymt 9 mars 2014 í Wayback Machine Sótt 11. október 2014.
  16. Kontiokari T, Sundqvist K, Nuutinen M, Pokka T, Koskela M, Uhari M. Randomised trial of cranberry-lingonberry juice and Lactobacillus GG drink for the prevention of urinary tract infections in women. BMJ 2001;322:1571-3. Sótt 11. október 2014.
  17. Þvagfærasýking upplýsingarit Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine, sótt 11. október 2014.