Nora Brockstedt og Monn Keys - Það er lítið hús

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Nora Brockstedt og Monn Keys - Það er lítið hús
Forsíða Nora Brockstedt og Monn Keys - Það er lítið hús

Bakhlið Nora Brockstedt og Monn Keys - Það er lítið hús
Bakhlið

Gerð IM 92
Flytjandi Nora Brockstedt, hljómsveit Egil Monn-Iversen
Gefin út 1955
Tónlistarstefna Dægurlög
Útgáfufyrirtæki Íslenzkir tónar

Nora Brockstedt og Monn Keys - Það er lítið hús er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Nora Brockstedt tvö lög með norsku hljómsveitinni Monn Keys. Annað lagið er Svo ung og blíð sem átti eftir að slá rækilega í gegn. Platan er hljóðrituð í Noregi. Pressun: AS Nera í Osló.

Lagalisti[breyta | breyta frumkóða]

  1. Svo ung og blíð - Lag - texti: Hoffman, Manning - Þorsteinn Sveinsson - Hljóðdæmi 
  2. Æskunnar ómar - Lag - texti: Pfeiffer - Þorsteinn Sveinsson.


Nora Brockstedt og „Monn Keys“[breyta | breyta frumkóða]

Norska hljómsveitin „Monn Keys“ samanstóð árið 1955 af Noru sjálfri, hljómsveitarstjóranum Egil Monn-Iversen, Sølvi Wang, Frederick Conradi, Arne Bendiksen, Per Asplin og Oddvar Sanne. Hljómsveitin starfaði í einni eða annarri mynd frá 1948 – 1964 og Nora var í henni allt til ársins 1956, er hún tók að einbeita sér að eigin ferli. Hljómsveitin náði miklum vinsældum á Norðurlöndunum enda voru fjölhæfir listamenn og skemmtikraftar á ferðinni. Þau héldu úti eigin revíu-sýningu og spiluðu töluvert inn á plötur. Þau komu einnig fram í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndum.[1] Monn Keys komu til Íslands árið 1954 á vegum Tage Ammendrup og voru með nokkrar skemmtanir í Austubæjarbíói. Góður rómur varð gerður að þessum skemmtunum enda voru þær fjölbreyttar. Flutt voru gamanmál, amerísk og norræn dægurlög sungin og sungið á íslensku svo nefnd séu dæmi.

Monn Keys og Nora í Austurbæjarbíói árið 1954.
Forsíða dagskrárheftis 1954.


Lagið „Svo ung og blíð / Það er lítið hús”[breyta | breyta frumkóða]

Gilly, Gilly, Ossenfeffer, Katzenellen Bogen by the Sea hét lag Hoffmann og Manning sem Þorsteinn Sveinsson sneri yfir á íslensku og skírði Svo ung og blíð. Síðan hefur lagið verið betur þekkt undir heitinu Það er lítið hús (út við lygnan straum). Lagið sem Nora Brockstedt og Monn Keys sungu inn á þessa plötu árið 1955 fyrir Íslenzka tóna sló strax í gegn. Grípandi lagið, tær rödd Noru og hreimur söngvaranna hittu beint í mark.

Fá lög hafa orðið vinsælli síðustu mánuðina en lögin, sem Nora Brockstedt syngur — einkum þó „Það er lítið hús út við lygnan straum“. Börnin flykkjast að útvarpinu í óskalagatímum og endranær, þegar hin glaðlega hreina rödd Noru heyrist, laus við alla væmni og uppgerð, og tónarnir snerta strengi æskunnar og lífsgleðinnar í hjörtum fullorðna fólksins. Ókunnugir halda, að þetta sé rödd ungrar stúlku — svona 17 eða 18 ára — og verða því forviða, þegar þeir heyra, að hún sé talsvert miklu eldri, gíft og eigi sjö ára gamlan strák.[2] - Blaðamaður Fálkans

Svo ung og blíð / Það er lítið hús[breyta | breyta frumkóða]

Það er lítið hús,
út við lygnan straum,
þar sem laglegt fljóð,
átti ljúfan draum.: Síðan draumsins mynd,
dulinn varð ei henni meir,
hjá Gilly, Gilly Ossenfeffer Katsenellen kofa út við sjó.
Hún var úti þá,
hélt um blómin sín,
halur sagði einn,
„halló” ástin mín.
Áður orð hún fann,
ofurheitt hún kyssti hann,
hjá Gilly, Gilly Ossenfeffer Katsenellen kofa út við sjó.
Svo giftust sveinninn góði
og þessi fagra hrund
og gáskafull þau eyddu
sinni fyrstu unaðsstund,
í litlu húsi,
út við lygnan straum,
þar sem laglegt fljóð
átti ljúfan draum.
Jafnvel enn í dag
hamingjan þar hefur fund,
hjá Gilly, Gilly Ossenfeffer Katsenellen kofa út við sjó.
Ljóð: Þorsteinn Sveinsson

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sjá frekari umfjöllun um hljómsveitina: http://no.wikipedia.org/wiki/The_Monn_Keys
  2. Fálkinn, 23. mars 1956, bls. 3.