Fara í innihald

Nikola Tesla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nikola Tesla

Nikola Tesla (10. júlí 1856 í Smiljan í Króatíu7. janúar 1943 í Manhattan, New York) var serbnesk-bandarískur uppfinningamaður, eðlisfræðingur, véla- og rafmagnsverkfræðingur. Uppfinningar hans og kennileg verk eru undirstaða riðstraumskerfa. Á meðal uppfinninga hans eru útvarpið, fjölfasaafldreifikerfið og riðstraumsmótorar sem stuðluðu að iðnbyltingunni síðari. SI-mælieining segulstyrks, tesla, er nefnd í höfuðið á honum.

Uppvaxtarár

[breyta | breyta frumkóða]

Nikola Tesla fæddist árið 1856 þann 10. júlí. Hann fæddist í þorpinu Smiljan í Austurríska keisaradæminu sem er í dag hluti af Króatíu. Tesla átti þrjár systur og bróður og var af serbneskum ættum. Faðir hans var prestur í serbneskri rétttrúnaðarkirkju.

Eftir grunnnám í Karlovac í Króatíu fór Tesla í háskólanám í Graz í Austurríki árið 1875 og nam það sem hann hafði mestan áhuga á, rafmagnsverkfræði. Tesla var bráðgáfaður nemandi og þekktur fyrir að reita kennarana til reiði með efasemdum sínum um námsefnið. Helst var Tesla á móti þeirri kenningu að jafnstraumur væri eina leiðin til að flytja raforku. Aðeins var hægt að flytja raforku skamman veg með jafnstraumi og því var Tesla þeirrar skoðunar að jafnstraumur væri ekki nógu góð leið til raforkuflutnings. Hann var viss um að betri leið væri til. Tesla hugaði því mikið að riðstraumskenningum og var mikill áhugamaður um það fyrirbæri. En riðstraumur var þá hálfgerð draumahugmynd í vísindaheiminum sem fáir höfðu mikla trú á að gæti orðið að gagni.[1]

Þegar Tesla var hálfnaður með háskólanám sitt í Austurríki veiktist faðir hans og Tesla fór heim. Stuttu síðar lést faðirinn og Tesla sneri ekki aftur til Austurríkis í skólann.[2]

Fjölskylda Teslu var drepinn í Ustasa útrýmingabúðum í Jasenovac í Króatíu í seinni heimsstyrjöldinni með öðrum 600.000 Serbum.

Tesla var efnalítill og fékk sér því vinnu í Búdapest í Ungverjalandi hjá fyrirtæki sem sérhæfði sig í símskeytum. Hann hafði áhyggjur af menntunarleysi sínu en hélt þó enn í þann draum sinn að verða frumkvöðull í rafmagnsverkfræði. En á meðan Tesla var í Búdapest fékk hann hugmyndir um segulsvið sem snerist og byrjaði að þróa spanvél sem seinna gæfi möguleika á nýtingu riðstraums.[3]

Árið 1882 fékk hann starf við að betrumbæta rafmagnstækjabúnað í Parísarborg. Hann skaraði þar fram úr, varð þekktur sem verkfræðingur og smíðaði sína fyrstu spanvél. Sama ár fór Tesla heim frá Frakklandi í flýti til rúmliggjandi móður sinnar. Eftir andlát hennar veiktist Tesla en náði bata þremur vikum seinna.[4]

Árið 1884 beindi hann för sinni til New York í kjölfar þess að Thomas Edison bauð honum vinnu. Þar átti Tesla að vinna við að betrumbæta og endurhanna vélar Edisons. Edison bauð Tesla 50.000 dala bónus fyrir að endurbæta jafnstraumsrafal Edisons. Tesla var lítt hrifinn af tækjabúnaði sem byggði á jafnstraumi en vann samt sem áður hörðum höndum að öllu sem Edison lagði fyrir hann. Tesla ætlaði að nota peninginn til að stofna sitt eigið fyrirtæki þar sem hann gæti einbeitt sér að eigin uppfinningum. Tesla stóð við sinn hluta samningsins en Edison sveik hann um launin. Tesla sagði þá upp hjá Edison og stofnaði eigið fyrirtæki. Fyrirtækið sérhæfði sig í ljósagerð og Tesla fann upp betri ljós en áður höfðu þekkst og fékk einkaleyfi á þeim. Ekki leið á löngu þar til fjárfestar fyrirtækisins létu Tesla fara og hann varð atvinnulausá ný. Frá 1886 til 1887 vann hann sem verkamaður og sinnti uppfinningunum í frítíma sínum.[5]

Árið 1887 þegar Tesla var búinn að útfæra sína fyrstu riðstraumsvél og kynna hana hafði George Westinghouse, helsti samkeppnisaðili Edisons á þeim tíma, sambandi við Tesla, keypti af honum einkaleyfið og fékk hann í vinnu hjá sér. Mikil samkeppni um viðskipti braust út á milli jafnstraumskerfa Edisons og riðstraumskerfa Tesla og Westinghouse en í þeirri samkeppni höfðu Tesla og Westinghouse betur.[6]

Fljótlega kom Tesla á fót eigin rannsóknarstofu þar sem hann gat unnið að uppfinningum sínum. Til þess að draga úr ótta fólks við riðstraumsnotkun hélt hann sýningar á rannsóknarstofu sinni þar sem hann kveikti ljós þráðlaust með því að láta rafmagn leika um líkama sinn. Árið 1891 fann hann upp „Tesla-spóluna“ en hún hefur mikið verið notuð í útvörpum, sjónvörpum og fleiru.[7]

Árið 1893 voru Tesla og Westinghouse fengnir til þess að sjá um lýsinguna á heimssýningunni í Chicago. Það tókst þeim svo vel að allir urðu sannfærðir um að riðstraumskerfi Tesla væri framtíðin og brátt voru einu rafkerfin sem í notkun voru um öll Bandaríkin riðstraumskerfi. Árangurinn varð til þess að þeir fengu samning við virkjun Niagara-fossanna en ekki Edison. Frá þeirri virkjun var rafmagn flutt rúmlega 35 kílómetra leið til borgarinnar Buffalo. Það má þakka Tesla að rafmagn varð hluti af daglegum veruleika sífellt fleiri heimila.[8]

Colorado og Wardenclyffe

[breyta | breyta frumkóða]
Wardenclyffe-turninn.

Árið 1899 fór Tesla til Austur-Colorado og byggði sér þar rannsóknarstofu með stóru járnmastri. Þar fór hann að huga að þráðlausum flutningi rafmagns. Í Colorado var veðurfar kjörið til rafmagnstilrauna auk þess sem Tesla fékk þar fría orku. Tesla hafði hugsað sér að nota yfirborð jarðar og lofthjúp hennar sem leiðara og senda þannig orku hvert sem var á jörðinni. Í einni tilraun sinni í Colorado hleypti Tesla tíu milljón volta rafspennu í jörðina og straumurinn fluttist gegnum alla jörðina og til baka í mastrið. Straumurinn braust svo út úr járnmastri Tesla sem 40 metra löng bogadregin elding. Þessi elding er enn stærsta manngerða elding sem þekkt er. Þessi tilraun varð til þess að rafallinn sem hann fékk orku frá brann yfir og hann fékk ekki lengur fría orku.[9]

Tesla fluttist aftur til New York og valdi fjarskiptatækni sem aðalverkefni sitt fremur en raforkuflutning. Westinghouse var þá hættur að styrkja Tesla en J. P. Morgan útvegaði honum stað til að byggja sér nýtt aðsetur á Long Island en Morgan var þá auðugasti maður Bandaríkjanna. Tesla fór að byggja stærri og vandaðri útgáfu af rannsóknarstofunni í Colorado, sem nefnd var Wardenclyffe. Tesla ætlaði sér að nota Wardenclyffe-turninn sem útvarpssendi en vonaðist einnig til þess að geta nýtt hann til orkudreifingar einn daginn. Seinna var hætt við verkefnið vegna fjárhagserfiðleika.[10]

Nokkrum árum seinna varð Guglielmo Marconi[11] frægur fyrir að finna upp útvarpstæknina.

Árið 1917 hlaut Tesla Edison-orðuna en það var virtasta heiðursmerki sem æðsta stofnun rafmagnsverkfræðinga í Bandaríkjunum gat veitt.[12]

Þann 7. janúar 1943 lést Nikola Tesla úr hjartaáfalli á hótelherbergi í Manhattan í New York. Þrátt fyrir að hafa selt einkaleyfi sitt á riðstraumskerfum sínum, dó hann skuldugur. Í gögnum sem fundust eftir dauða hans var að finna upplýsingar um gereyðingarvopn sem hann hafði unnið að í nokkur ár.[13]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Biography; Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years; Britannica [án árs].
  2. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years.
  3. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years; Britannica [án árs].
  4. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Biography.
  5. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Biography; Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years.
  6. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years.
  7. Britannica [án árs]; Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years.
  8. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years.
  9. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years; Lifandi vísindi 2007: 37-38.
  10. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years.
  11. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years; Lifandi vísindi 2007:38.
  12. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years.
  13. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Biography; Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years.
  • Smiljan Kroatia Geymt 28 apríl 2010 í Wayback Machine
  • Tesla - Master of Lightning, vefur PBS
  • „Hver var Nikola Tesla og hvert var framlag hans til vísindanna?“. Vísindavefurinn.