Nagornó-Karabak
Nagorno-Karabakh er landlukt hérað í Suður-Kákasus sem nær yfir suðausturhluta Minni Kákasusfjalla. Héraðið er fjalllent og skóglent. Bein þýðing á nafninu væri hinir fjalllendu svartgarðar þar sem 'Nagorno' er leitt af rússneska lýsingarorðinu nagornyj (наго́рный) sem þýðir fjalllent, og Karabakh er leitt af tyrkíska *kara (svart) og persneska باغ bâğ (garður). Héraðið er allt innan landamæra Aserbaísjans. Frá 1991 til 2023 var meirihluti þess sjálfstætt ríki Armena sem kallaðist Lýðveldið Nagorno-Karabakh eða Artsakh-lýðveldið, en naut ekki alþjóðlegrar viðurkenningar. Mörk héraðsins miðast venjulega við mörk sjálfstjórnarhéraðsins Nagorno-Karabakh innan Sovétríkjanna sem var 4.400 ferkílómetrar að stærð, en sögulega héraðið náði yfir um 8.223 ferkílómetra.