Fara í innihald

Nýi annáll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nýi annáll er annáll nefndur varðveittur í nokkrum handritum, því elsta, frá síðari hluta 16. aldar, merkt -AM 420 4to.

Nýi annáll er ásamt Gottskálksannál talinn vera traustasta heimildin um Svarta dauða á Íslandi. Um höfund Nýja annáls er ekki vitað nákvæmlega en norski sagnfræðingurinn Gustav Storm (1845-1903) taldi að hann hefði verið skrifaður í Skálholti seint á 15. öld. Hannes Þorsteinsson (1860-1935) ritstjóri og þjóðskjalavörður taldi hins vegar að annállinn væri ritaður nær samtímis atburðunum af manni sem líklega hefði verið búsettur á Suðurlandi, hugsanlega í Skálholti, en fór ekki í nákvæmari getgátur um það.

Björn Þorsteinsson (1918-1986) sagnfræðingur taldi höfund Nýja annáls líklega vera Jón Egilsson, notarius publicus hjá Jóni biskupi Vilhjálmssyni á Hólum 1429-34. Jón Egilsson var talinn lærður maður, líklega norskur og var í þjónustu biskupa hérlendis. Björn telur að hann hafi komið til landsins um 1412 og dvalist í Skálholti til um 1423 en þá hugsanlega farið til Hóla eða til Skagafjarðar og dvalist þar til dauðadags. Björn taldi að Jón hefði sennilega skrifað annálinn um 1435 þótt annállinn sjálfur endi 1430 en talið er fullvíst að Jón Egilsson hafi verið enn á lífi árið 1439.

Ljóst er að annállinn byggðist á skrifuðum gögnum frá Skálholti, sem tilheyrðu staðnum sjálfum og öðrum stofnunum biskupsdæmisins og spanna þann tíma sem annállinn fjallar um. Líklega eru þar einnig gögn úr Hólabiskupsdæmi eftir 1420, t.d. varðandi embætti officialis 1420 og deilur þar um 1423 og einnig um brunann á Munkaþverá 1429, auk ýmissa skjala og minnisgreina. Í annálnum hattar einnig fyrir hinni glötuðu reisubók Björns Einarssonar Jórsalafara og ýmislegt fleira sem tengdist honum og hans niðjum.[1]

Annállinn telst ekki samtímaheimild þótt hann sé að nokkru byggður á heimildum sem orðið hafa til samtímis atburðum.

Dæmi:

1401. Vtan ferd hustru Solueigar Þorsteins dottur j Uatzfirdi er atti Biorn Einar son. j þeire feriu
uar hann sialfur. liett byggia at helminge vid
kirkiuna j Skalholte. kom hon fram med heilu oc
holdnu.
1402. Braut Kana batinn austur fyrir Sidv. topudust margir menn. oc mesti hlutur goz. Vtkuoma
herra Vilchinns j Austfiordum. med heilu oc holdnu.
  1. Jón Ólafur Ísberg, „Annálar og heimildir um Svarta dauða“, Ritmennt, 1. tbl. 2. árg. 1997