Fara í innihald

Nútími (jarðfræði)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Línurit sem sýnir hækkun sjávarborðs eftir lok síðustu ísaldar fyrir 11-6.000 árum.

Nútíminn í jarðfræðilegu samhengi eða hólósentímabilið er jarðfræðilegt tímabil er nær frá nútímanum aftur um 10.000 geislakolsár. Tímabilið er tengt við svokallað MIS 1, en það er hlýskeið þeirrar ísaldar sem við lifum á.

Siðmenning manna varð öll til á hólósen. Tímabilið hófst að afloknu snörpu kuldaskeiði sem nefnist yngra-drýas (yngra holtasóleyjarstig) og markaði endalok pleistósentímabilsins. Aldursákvarðanir sýna fram á að yngra-drýas lauk fyrir um 9.600 árum f.o.t. (11.550 almanaksárum fyrir nútíma). Ummerki yngra-drýas eru eingöngu skýr á norðurhveli jarðar. Samkvæmt loftlagsgögnum úr GRIP-ískjarnanum úr Grænlandsjökli hefst hólósentímabilið á 1623,6 m dýpi í kjarnanum fyrir 11.500 ískjarnaárum.[1]

Hólósen hefst þegar hinir stóru jöklar pleistósentímabilsins taka að hopa og hverfa. Hólósen er fjórða og síðasta tímabil neógentímaskeiðsins. Nafnið er komið frá grísku orðunum ὅλος holos „algjörlega“ og καινός kainos „nýtt“.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Svante Björck o.fl. 1998. An event stratigraphy for the Last Termination in the North Atlantic region based on the Greenland ice-core record: a proposal by the INTIMATE group. Journal of Quaternary Science, 13(4):283-292.