Múskat (krydd)
Múskat er krydd gert úr aldini nokkurra sígrænna trjáa af múskatviðarætt sem eru upprunnin á Mólúkkaeyjum í Indónesíu, aðallega múskattrés (Myristica fragrans). Aldinið er gult, egglaga hýðisaldin um 20-30 mm langt og 15-18 mm breitt og vegur milli 5 til 10 gr þurrkað. Frækjarninn er umlukinn rauðgulu, sepóttu hýði (múskatblómi). Hnetan og hýðið eru rifin niður og notuð sem krydd. Bragðið er mjög svipað, en hnetan hefur ögn sætara bragð og blómið mildara bragð.
Allt múskat í heiminum kom frá Bandaeyjum fram á 19. öld. Það hefur fundist í 2000 ára gömlum gröfum í Egyptalandi, en barst fyrst til Evrópu á 6. öld.
Múskatblóm
[breyta | breyta frumkóða]Múskatblóm er rauðleitt hýði sem umlykur kjarnann (hnetuna) í aldininu. Það er tekið af og þurrkað og selt sérstaklega. Þegar það þornar verður það gulleitara. Það gefur aðeins mildara bragð en hnetan og er oft notað í bakstur og til að krydda fisk. Múskatblóm er líka notað heilt til að krydda súpur og karrí.