Fara í innihald

Skíðishvalir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Mysticeti)
Skíðishvalir
Tímabil steingervinga: Snemma á eósen - okkar daga
Hnúfubakur á stökki
Hnúfubakur á stökki
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Undirfylking: Hryggdýr (Vertebrata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Undirættbálkur: Mysticeti
Cope, 1891

Núlifandi hvalategundir skiptast í tvo undirættbálka, skíðishvali (Mysticeti) og tannhvali (Odontoceti). Flokkunarfræðingar telja 14 núlifandi tegundir skíðishvala og finnast þeir í öllum heimshöfum.

Í stað tanna hafa skíðishvalir hornkenndar plötur, svo nefnd skíði í efri skolti, sem notaðar eru til að sía fæðuna frá sjónum en helsta fæða þeirra eru krabbadýr, einkum sviflægar krabbaflær, og smáfiskar. Opna hvalirnir kjaftinn upp á gátt þegar þeir eru í æti og loka honum svo á ný. Þrýsta þeir síðan sjónum út gegnum skíðin og gleypa átuna.

Nasirnar opnast ofan á höfðinu hjá öllum hvölum og þeir þurfa þess vegna aðeins að lyfta efsta hluta þess upp yfir yfirborð sjávar til að anda. Skíðishvalir hafa tvö blástursop en tannhvalir aðeins eitt.

Stærðarmunur kynjanna er lítill hjá skíðishvölum, þótt kýrnar séu oftast heldur stærri en skíðishvalir eru einkvænisdýr.

Margar skíðishvalategundir eru mikil fardýr og fara oft um mörg þúsund kílómetra leið milli vetrar og sumardvalarstaða. Skíðishvalir gefa frá sér afar sérkennileg hljóð og er það kallað að þeir „syngi“. Hljóðið getur borist gífurlega langt og er álitið vera mikilvægt til samskipta á úthöfunum.

Ættir skíðishvala

[breyta | breyta frumkóða]

Vísindamenn skipta núlifandi skíðishvölum í fjórar ættir:

Í gráhvalaætt er ein tegund og lifir einungis við strendur Norður-Kyrrahafs.

Í sunnhvelaætt er einungis ein tegund, litli sléttbakur. Lítið er vitað um þessa hval tegund sem lifir í grennd við Suðurskautslandið. Litli sléttbakur er minnsta tegund skíðishvala og er um 4 til 6 metra á lengd og 3000 til 3500 kg á þyngd.

Í sléttbakaætt eru fjórar tegundir í tveim ættkvíslum. Í Norður-Atlantshafi eru norðhvalur og sléttbakur.

Í reyðarhvelaætt eru átta tegundir í tveim ættkvíslum. Fimm af þeim lifa í Norður-Atlantshafi og eru það hnúfubakur, steypireyður, langreyður, sandreyður og hrefna. Steypireyðurin er stærsta dýr sem nokkru sinni hefur lifað á jörðinni, getur orðið allt að 30 m löng og getur orðið 150 tonn að þyngd.

  • Páll Hersteinsson (ritstj.), Íslensk spendýr (Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2005). ISBN 9979-2-1721-9
  • „Hvernig geta skíðshvalir étið fisk?“. Vísindavefurinn.