Myrká (Hörgárdal)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Fyrir aðrar merkingar má sjá aðgreiningarsíðuna.
Djákninn og Guðrún ríða til Myrkár

Myrká er bær og áður kirkjustaður og prestssetur í Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu. Bærinn stendur við mynni Myrkárdals, ekki langt frá ánni Myrká. Hans er getið í Landnámabók og árinnar einnig; um hana voru mörk landnáma Geirleifs Hrappssonar og Þórðar slítanda. Þar segir einnig að Þórður hafi gefið Skólm frænda sínum af landnámi sínu en sonur Skólms, Þórálfur hinn sterki, hafi búið á Myrká.

Á Myrká var prestssetur fram yfir miðja 19. öld og kirkja stóð þar fram á 20. öld, en kirkjugarðurinn er enn notaður og sáluhliðið með klukkunum stendur enn. Þarna á þjóðsagan um djáknann á Myrká að hafa gerst. Þekktastur presta á Myrká er líklega Páll Jónsson sálmaskáld, sem var þar aðstoðarprestur og síðar prestur 1846-1858, síðan á Völlum í Svarfaðardal og seinast í Viðvík. Hann orti meðal annars Ó Jesú, bróðir besti.