Myrká (Hörgárdal)
Myrká er bær og áður kirkjustaður og prestssetur í Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu. Bærinn stendur við mynni Myrkárdals, ekki langt frá ánni Myrká. Hans er getið í Landnámabók og árinnar einnig; um hana voru mörk landnáma Geirleifs Hrappssonar og Þórðar slítanda. Þar segir einnig að Þórður hafi gefið Skólm frænda sínum af landnámi sínu en sonur Skólms, Þórálfur hinn sterki, hafi búið á Myrká.
Á Myrká var prestssetur fram yfir miðja 19. öld og kirkja stóð þar fram á 20. öld, en kirkjugarðurinn er enn notaður og sáluhliðið með klukkunum stendur enn. Þarna á þjóðsagan um djáknann á Myrká að hafa gerst. Þekktastur presta á Myrká er líklega Páll Jónsson sálmaskáld, sem var þar aðstoðarprestur og síðar prestur 1846-1858, síðan á Völlum í Svarfaðardal og seinast í Viðvík. Hann orti meðal annars Ó Jesú, bróðir besti.