Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns
Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns er safn í Reykjavík sem var stofnað 28. janúar 1985, og opnaði árið eftir, þann 6. desember. Safnið opnaði á þeim degi, því þá hefði Kristján Eldjárn orðið sjötugur, en hann var einn af aðalhvatamönnum safnsins. Myntsafnið er til húsa að Kalkofnsvegi 1.
Skipulag sammvinna Seðlabankans og Þjóðminjasasfnsins hófst nærri tuttugu árum áður en safnið hóf rekstur sinn, og var undirbúningur þess lengst af í höndum Haralds Hannessonar hagfræðings og fyrrverandi Þjóðminjavarðar Þórs Magnússonar. Seðlabanki og Þjóðminjasafn Íslands tóku síðan með sér samstarf um rekstur myntsafns, en samning um það efni staðfesti þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, 28. janúar 1985.
Safnið inniheldur t.d. elstu peningaseðla sem heimilt var að nota hér á landi, sem voru danskir kúrantseðlar frá 18. öld, og síðan allar gerðir innlendra seðla frá upphafi íslenskrar seðlaútgáfu. Þar er einnig að finna forngríska og rómverska mynt, erlendar myntir sem getið er í íslenskum heimildum frá fyrri öldum, svo sem dalir, dúkatar, nóbil, gyllini, mörk og skildingar, norræn mynt frá því að hún var samræmd við stofnun Myntsambands Norðurlanda 1873 og fram til þess er farið var að slá íslenska mynt árið 1922, en síðan öll mynt sem gefin hefur verið út hér á landi. Auk opinbers verðmiðils er sýnt safn íslenskra vöruseðla og brauðpeninga. Einnig er á safninu minnispeningar, heiðurspeningar og orður. Meðal þess er danneborgsorðan sem Margrét 2. Danadrottning gaf safninu og Nóbelsverðlaunapeningur Halldórs Laxness sem hann fól safninu til varðveislu ásamt fleiri heiðurstáknum.