Mjallhvít

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þessi grein er um þjóðsagnapersónuna, Mjallhvít er líka íslenskt kvenmannsnafn
Mjallhvít í glerkistu, myndskreyting eftir Alexander Zick.

Mjallhvít er ævintýri sem kemur fyrir í ýmsum útgáfum víða um heim. Þekktasta útgáfan er úr Grimmsævintýrum frá fyrri hluta 19. aldar. Í stuttu máli segir ævintýrið frá stúlku sem er svo fögur að stjúpmóðir hennar (eða móðir í sumum útgáfum) hrekur hana út í skóg af afbrýðisemi. Þar hittir hún fyrir dverga sem taka hana að sér. Stjúpan á töfraspegil sem segir henni afdrif stúlkunnar. Hún heldur þá út í skóg, villir á sér heimildir og freistar stúlkunnar með gjöfum sem ætlað er að drepa hana. Dvergarnir bjarga henni í tvö skipti, en í þriðja skiptið kemur prins (eða kóngur) og losar hana undan töfragripnum og þau gifta sig í kjölfarið.

Sagan birtist fyrst undir nafninu Sneewittchen í sagnasafni Grimmsbræðra árið 1812. Útgáfa þeirra er samsett úr nokkrum þýskum útgáfum sem þeir þekktu. Til er eldri útgáfa sögunnar á prenti sem birtist í sagnasafni Giambattista Basile í byrjun 17. aldar og nefnist þar „Ambáttin“ (La schiavottella). Dæmi um íslenska útgáfu af þessari sögu er „Vilfríður Völufegri“ úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Sagan er til í mörgum mismunandi útgáfum, þýskar útgáfur innihalda dvergana sjö og spegil drottningar, albönsk útgáfa hefur fjörutíu dreka í stað dverganna og enn aðrar útgáfur hafa ræningja í stað þeirra.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]